Hraðakstur, hvalreki og búfé á þjóðvegum

Myndin er af Ströndum en tengist fréttinni ekki.

Lögreglan á Vestfjörðum hafði í mörgu að snúast í síðustu viku.

Sextán ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar.
Sá sem hraðast ók var á 159 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 90 km á klst. Ökumaðurinn var stöðvaður við akstur í Ísafjarðardjúpi.
Flestir voru stöðvaðir í Strandabyggð en einnig nokkrir á Patreksfirði og í Ísafjarðarbæ.
Þá var einn ökumaður stöðvaður við akstur án ökuréttinda og annar ávíttur fyrir að spóla á tjaldsvæði.

Hvalreki varð í vestanverðum Kollafirði í byrjun vikunnar. Yfir tug grindhvala voru í flæðarmálinu og var eitt dýrið sært. Það drapst skömmu síðar.
Björgunarsveitin Dagrenning sigldi út að grindhvalahópnum sem var þá um 200 metra frá landi.
Tveir til þrír úr grindhvalahópnum voru með skrámur á skrokknum að sögn björgunarsveitarfólks en voru sprækir og var þeim smalað út á haf ásamt hinum í hópnum.

Talsvert hefur verið um að ekið hafi verið á búfé á þjóðvegum að undanförnu og bárust lögreglunni á Vestfjörðum fimm tilkynningar um slíkt í síðustu viku.
Eru ökumenn beðnir að hafa í huga þá hættu sem skapast af ám við sumarbeit auk þess sem talsvert eignatjón getur af þessu hlotist þar sem bifreiðar fara oft mjög illa og búfénaður drepst.
Sömuleiðis eru eigendur þessa fjár hvattir til að reyna eftir fremsta megni að halda því frá vegi.

DEILA