Hættir viðskiptum við smálánafyrirtæki

Sparisjóður Strandamanna lýsti því yfir í gær á heimasíðu sinni að innheimta og umsýsla smálána verði ekki heimiluð í gegnum innheimtukerfi og tengingar í nafni Sparisjóðsins og að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana svo sem eins og uppsögn á viðskiptasamböndum.

Forsaga málsins er sú að á vef Neytendasamtakanna þann 27. júlí birtist frétt þess efnis að samtökin hafi ítrekað bent sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Strandamanna á að ólögleg smálánafyrirtæki þrífist í skjóli sjóðsins. Í niðurlagi fréttarinnar segir að Neytendasamtökin hafi kallað eftir svörum frá stjórn Sparisjóðs Strandamanna um hvort stjórnin muni sýna samfélagslega ábyrgð í verki og segja upp viðskiptum við fyrirtækið Almenna innheimtu ehf, sem samtökin segja hafa þann eina starfa að innheimt ólögleg smálán.

Baráttan gegn smálánafyrirtækjum hefur staðið yfir um nokkra hríð og hefur Oddný Harðardóttir þingkona Samfylkingar ítrekað lagt fram lagafrumvörp sem koma eiga böndum á þessa starfsemi. Í þættinum Víglínan árið 2018 sagði Oddný „„Þetta er náttúrulega bara glæpastarfsemi, leyfi ég mér að segja,“ segir Oddný. „Þessi fyrirtæki koma inn á markaðinn eftir hrun, nýta sér bága stöðu fólks, bæði ungs fólks, öryrkja, einstæðra foreldra og fólks sem stendur veikt fyrir. Nýtir sér þessa stöðu. Til að byrja með voru þetta 700% ársvextir.“

bryndis@bb.is

DEILA