Evrópsk ofveiði í Gíneuflóa

Svetlana Bourmaud

Mánudaginn 31. ágúst, kl. 14:00, mun Svetlana Bourmaud verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

Meistaraprófsvörnin er opin almenningin en vegna samkomubanns af völdum COVID-19 getur takmarkaður fjöldi sótt viðburðinn.

Vörnin verður einnig aðgengileg á netinu fyrir áhugasama á YouTube rás Háskólaseturs.

Leiðbeinandi er Pétur Dam Leifsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Prófdómari er dr. Kristen Lowitt, lektor við Queens University í Kanada.

Útdráttur

Þar sem lífrænar auðlindir í Gíneuflóa eru vegna hins mikla hafstraums þar einar þær gjöfulustu á Jörðinni þá er umrætt hafsvæði sem umlykur ríkin við Gíneuflóa jafnframt eitt það ásettnasta þegar kemur að ofveiði skipa frá öðrum fiskveiðiríkjum sem sækja á þessi mið og þá jafnframt af hálfu skipa sem stunda þar ólögmætar fiskveiðar.

Evrópuambandið (ESB) leikur almennt lykilhlutverk í þeirri mynd sem snýr að auðlindanýtngu við strendur Vestur-Afríku og þrátt fyrir að ESB og aðildarríki þess séu aðilar að fjölmörgum þjóðréttarsamningum sem mæla fyrir um sjálfbæra nýtingu og ábyrga stjórnun fiskveiða á alþjóðavísu og gerir einnig tvíhliða samninga við fjölmörg þróunarríki í Afríku á þeim nótum þá stunda fiskveiðiskip frá ríkjum ESB engu að síður ósjálfbærar fiskveiðar í stórum stíl á þessu heimssvæði er leiðir til spjalla á fiskimiðunum.

Þetta gerist þrátt fyrir að ríki Vestur-Afríku séu ótvírætt á meðal minnst þróuðu ríkja veraldar samkvæmt gögnum frá Þróunarstofnun SÞ (UNDP) og stór hluti almennings í ríkjunum reiði sig á fiskmeti sem næringu og sú þörf fari nú stigvaxandi með auknum fólksfjölda í ríkjunum.

Ólögmætar fiskveiðar á þessu heimssvæði eru einnig vaxandi vandamál en slík fiskiskip og öflugur floti frá ESB- ríkjunum stefna nú sameiginlega í hættu matvælaöryggi og samfélagslegri þróun í ríkjunum við Gíneuflóa sem og einnig öryggi í siglingum á svæðinu almennt þar sem getu til eftirlits er jafnframt mjög ábótavant. Vestur-Afrika og raunar Afríka í heild sinni er að mati vísindamanna jafnframt sú heimsálfa sem fyrirsjáanlega mun verða fyrir einna mestum umhverfisáhrifum af völdum loftslagsbreytinga á komandi árum og áratugum og í því sambandi er það einnig afar mikilvægt skref í því ljósi að koma böndum á þessa skaðlegu ofveiði.

Í þessari ritgerð er markmiðið að efla skilning á helstu orsökum þess að skip frá ESB og öðrum ríkjum stunda eftir sem áður ósjálfbærar og jafnvel ólögmætar veiðar á hafsvæðum á borð þau undan Vestur-Afríku, auk þess sem leitast verður hér við að greina mögulegar lausnir sem nú þegar er verið að vinna með í slíku skyni, ýmist alþjóðalega, svæðisbundið eða innan einstakra ríkja, auk þess sem vikið verður að rannsóknum fræðimanna og að hlutverki frjálsra félagasamtaka í tengslum við þessi vandamál og mögulegar lausnir á þeim.

Að endingu mun rannsóknin leitast við að greina vandamálin í stærra samhengi við brýna þörf fyrir heilbrigða fiskveiðistjórnunar- hætti á heimsvísu í samhengi við umhverfisbreytingar í tenglum við loftslagsvána og verður þar sérstaklega litið til verka Didier Gascuel og fræðirits hans For a Revolution in the Sea (2019).

DEILA