Dýrafjarðargöng – Framvinda í vikum 34 og 35

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 34 & 35 við vinnu Dýrafjarðarganga.

 

Klárað var að steypa stétt sem kemur milli kantsteins og veggjar í göngunum.

 

Unnið var í tæknirýmum, fjarskiptahúsum og neyðarrýmum við lagnavinnu og tengingar. Unnið var að því að leggja lagnir að veglýsingu og tengja ljósin. Að auki var haldið áfram með að draga í lagnir að skiltum og neyðarskápum. Búið er að koma fyrir kantljósum í stéttina öðru megin og unnið að því að draga lagnir að kantljósum og setja niður kantljós í stéttina hinu megin. Búið er að festa upp alla blásara sem verða í göngunum en þeir eru samtals sextán.

 

Í Arnarfirði var fyrra lag klæðingar lagt á syðsta enda núverandi vegagerðar á rúmlega kílómeters kafla og beggja vegna við Hófsárbrúna og er umferðin komin á nýju brúna og stefnt að því að taka niður bráðabirgðabrúna. Að auki var unnið að lagningu neðra burðarlags og fláafyllinga á vegkafla á milli brúnna í Arnarfirði. Sem fyrr var unnið við efnisvinnslu í Arnarfirði.

 

Í Dýrafirði var fyrra lag klæðingar lagt frá gatnamótum við núverandi þjóðveg og rúman kílómeter inn eftir firðinum. Neðra burðarlag var lagt á stuttum köflum við munna og umhverfis stálplöturæsi sem Kjaransstaðará rennur í. Neðra efra burðarlag var lagt frá malbiksenda við munna og langleiðina að klæðingu eða á um þriggja kílómetra kafla. Að auki var unnið við girðingavinnu og efnisvinnslu.

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá vinnu við klæðingu, nýklæddan veg við Hófsá og útlögn á burðarlögum.

Fyrir hönd framkvæmdaeftirlits Dýrafjarðarganga

Baldvin Jónbjarnarson

DEILA