Beðið eftir Beckett

Kómedíuleikhúsið er að setja upp leiksýninguna Beðið eftir Beckett í Haukadal, Dýrafirði nú í lok mánaðarins.

Beðið eftir Beckett, er kómedía þar sem leikari nokkur bíður eftir að Samuel Beckett skrifi fyrir sig nýtt leikrit. Á meðan á biðinni stendur styttir hann sér stundir með því að máta sig við persónur úr eldri leikritum skáldsins og bregður fyrir sig ögn af Dante, Artaud og Hallgrími Péturssyni. Einsog í sönnum grískum harmleik á leikarinn von á sendiboða guðanna.

Leikverkið verður frumsýnt þann 30. ágúst, 2020 í leikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal, Dýrafirði. Höfundur verksins er Trausti Ólafsson sem jafnframt leikstýrir.
Leikari er Elfar Logi Hannesson og einnig kemur ungur dýrfirskur leikari við sögu í leiknum, Þrymur Rafn Andersen. Leikmynd og búninga hannar Marsibil G. Kristjánsdóttir, höfundur tónlistar er Hjörleifur Valsson og Sigurvald Ívar Helgason hannar lýsingu.

Beðið eftir Beckett er styrkt af Menntamálaráðuneyti.

DEILA