Strandveiðar út ágúst

Ráðherra hefur með undirritun reglugerðar hækkað aflaviðmið til strandveiða um 720 tonn eða um 7,2%. Í frétt á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem birt var í kjölfarið, segir að með því sé „komið til móts við þá miklu fjölgun báta sem hafa stundað strandveiðar á þessu ári“, er það vel.

Niðurlag fréttarinnar er hins vegar eftirfarandi fullyrðing: „Ráðherra hefur að lögum engar
frekari heimildir til að auka við aflaheimildir til strandveiða á þessu fiskveiðiári.“

Nægjanlegt svigrúm 

Hafi ráðherra rétt fyrir sér hefði hann að mínu mati átt að beita sér fyrir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða til að geta komið í veg fyrir þau vandræði sem nú eru í augsýn
varðandi strandveiðar, að þær verði stöðvaðar áður en tímabilinu lýkur.
Við breytingu á reglugerð, þar sem réttur til að færa hærra hlutfall af óveiddum heimildum til veiða á næsta fiskveiðiári, opnaðist tækifæri til að auka við heimildir strandveiðibáta.
Fyrirsjáanlegt var að breytingin hefði í för með sér að minna yrði veitt af þorski á yfirstandandi fiskveiðiári en gert var ráð fyrir. Aukinn afli strandveiðibáta mundi af þeim sökum ekki leiða til að veitt yrði umfram ráðgjöf á yfirstandandi fiskveiðiári. Jafnframt yrði aukningin nauðsynlegt útspil til að mæta vaxandi eftirspurn eftir ferskum þorski þar til nýtt fiskveiðiár hefst 1. september.

Strandveiðar verði í 48 daga

Markmiðið með breytingum á strandveiðikerfinu 2018 og aftur 2019 var að jafna aðstöðu milli svæða með því að allir fengju jafnmarga daga, aflaheimildir myndu duga í 48 daga,
jafnskipt í fjóra mánuði, maí-ágúst. Til að tryggja það enn betur var meirihluti atvinnuveganefndar einhuga um, árið 2019, að auka við aflaheimildir með því að ufsaafli gæti ekki leitt til stöðvunar strandveiða.

Ufsi ekki meðtalinn
Árið 2019 var viðmiðun til strandveiða 11.100 tonn af óslægðum botnfiski. Hægt hefði verið að nýta allar þær heimildir til að veiða þorsk þar sem 1.000 tonnum af ufsa hafði verið
bætt við botnfiskveiðiheimildir. Hluti verðmæta þessara 1.000 tonna átti að renna til verkefnissjóðs sjávarútvegsins. Þarna var búið að útbúa hvata til að nýta veiðiheimildir
í ufsa, sem í mörg ár hafa brunnið inni engum til gagns.

Jafnræði sniðgengið

Þrátt fyrir fjölgun báta lauk strandveiðum í fyrra með því að aflinn varð nokkru undir úthlutuðum veiðiheimildum. Strax og það var ljóst var einsýnt að það sem eftir sat kæmi til
viðbótar á árinu 2020, eins og gildir með aðrar úthlutaðar aflaheimildir.
Það var því ástæða til bjartsýni með strandveiðar nú í ár, þrátt fyrir fyrirsjáanlega fjölgun sem að hluta til mátti reka til Covid-19. Aflaheimildir yrðu nægar til að tryggja veiðar í 48
daga.

Aflaheimildir skertar með reglugerð

Við birtingu reglugerðar um   strandveiðar 2020 setti þó að manni ugg. Ráðherra hafði ákveðið að skerða heimildir til strandveiða um 1.000 tonn. Viðmiðun í þorski færð úr
11 þúsund tonnum í 10 þúsund tonn.
Þrátt fyrir að formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafi bent á að skilningur hennar hafi verið 11 þúsund tonn og það hafi verið það sem Alþingi samþykkti hefur ráðherra
verið ófáanlegur til að leiðrétta reglugerðina.

Betur má ef duga skal

Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur í tvígang skorað á ráðherra að leiðrétta reglugerðina. Áskorunin er hér með endurtekin í þriðja sinn auk þess sem kallað er eftir þeim heimildum sem eftir sátu á síðasta ári.
Strandveiðimenn trúa ekki öðru en ráðherra verði við ákalli LS og komi með því í veg fyrir stöðvun strandveiða í ágúst.

Örn Pálsson
framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda

DEILA