STARA – útgáfutónleikar 30. júlí

Fimmtudaginn 30. júlí nk. fara fram útgáfutónleikar í tilefni nýútgefnu hljómplötunnar STARA, sem er hugarfóstur ísfirska tónskáldsins og píanóleikarans Halldórs Smárasonar. Platan hefur hlotið jákvæð viðbrögð að undanförnu og hafa gagnrýnendur víða um heim vakið athygli á henni.

 

Tónleikarnir fara fram á upptökustað plötunnar, í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, en þar sleit Halldór barnsskónum og nam píanónám, lengst af undir handleiðslu Sigríðar Ragnarsdóttur.

 

Á tónleikunum flytur Strokkvartettinn Siggi þrjá strengjakvartetta af plötunni og þá verða önnur verk af flutt í hringóma hljóðkerfi. Sono Luminus útgáfan sérhæfir sig í upptökum svokölluðu á 9.1 „fully immersive audio“ kerfi, en þá er hljóðfærunum raðað í kringum hljóðnemana sem gerir hlustandanum kleift að staðsetja sig í miðjum hljóðfærahópnum.

 

STARA er gefin út af bandaríska útgáfufyrirtækinu Sono Luminus, sem hefur haslað sér völl hér á landi undanfarin misseri og meðal annars hljóðritað og gefið út plötur með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Önnu Þorvaldsdóttur, Sæunni Þorsteinsdóttur og Páli Ragnari Pálssyni.

 

Platan inniheldur sex verk skrifuð á árunum 2012-2018. Verkin eru í flutningi Strokkvartettsins Sigga (Una Sveinbjarnardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson), auk Emilíu Rósar Sigfúsdóttur, Geirþrúðar Ásu Guðjónsdóttur Skelton, Gunnlaugs Björnssonar, Helgu Bjargar Arnardóttur og Tinnu Þorsteinsdóttur.

 

Þann 20. ágúst verður svo blásið til útgáfutónleika syðra, í Kaldalóni í Hörpu.

Frekari upplýsingar um STARA má finna hér:

https://www.sonoluminus.com/store/stara

 

Vefslóðir á streymi eða kaup:

https://linktr.ee/halldorsmarason

 

Miða á tónleikana má nálgast hér, en þeir eru styrktir af Straumum og Tónlistarsjóði Rannís:

https://tix.is/is/event/10364/stara-utgafutonleikar-a-isafir-i/

DEILA