Spennið bílbeltin

Þrjátíu og fimm þúsund Íslendingar eða tíu prósent þjóðarinnar nota ekki bílbelti að staðaldri. Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu, segir þetta áhyggjuefni einkum í ljósi þess að tveir þriðju þeirra sem létust í bílslysum í fyrra voru ekki í öryggisbelti.

74 þeirra sem dóu í bílslysum síðastliðin tuttugu ár eða um fjórðungur hefðu sennilega lifað af hefðu þeir verið í bílbeltum, samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndar samgönguslysa.

„Það skiptir engu máli hvar þú ert í bílnum. Höggþunginn verður alls staðar sá sami inni í bílnum og hættan er alveg sú sama, hvort sem þú situr frammi í eða aftur í. Fyrir utan þetta mikilvæga atriði sem við erum alltaf að reyna að gera fólki grein fyrir: Segjum að það séu fjórir í bíl, allir eru í öryggisbeltum nema einn. Þessi eini er eins og dauðans pendúll sem kastast til inni í bílnum. Höggþunginn er svo ofboðslegur. Líkamsþyngd manns tugfaldast við árekstur eða bílveltu. Menn geta orðið eins og afríkufíll við svona aðstæður. Þá ertu ekki bara að skaða sjálfan þig heldur líka þá sem samviskusamlega settu á sig belti. Það eru aldrei þær aðstæður að það sé betra að vera án beltis,“ segir Einar.

DEILA