Rauði krossinn óskar eftir fjárstyrk vegna sjúkraflutninga

Bæjarráði Ísafjarðarbæjar barst nýlega erindi frá formanni Dýrafjarðardeildar Rauða kross Íslands.
Óskað var eftir fjárstyrki, kr. 150.000-200.000, vegna kostnaðar  tveggja starfsmanna
deildarinnar til náms í Sjúkraflutningaskóla Íslands, vorið 2020.

Dýrafjarðargöng kalla á þjálfaða sjúkraflutningamenn

Nýlega fóru fjórir aðilar frá Þingeyri í nám í Sjúkraflutningaskólanum, en talin var þörf til
frekari menntunar og mönnunar á Þingeyri, sérstaklega með tilkomu Dýrafjarðargangna.
Þessir fjórir voru einn slökkviliðsmaður og þrír einstaklingar frá RKÍ.

Síðastliðinn vetur var gerður samningur um að Ísafjarðarbær myndi greiða nám
slökkviliðsmanns og eins einstaklings frá RKÍ, og hefur greitt fyrir það alls kr. 787.143 á árinu 2020.
Ákveðið var að RKÍ myndi kosta nám tveggja manna RKÍ, og hefur Dýrafjarðardeild Rauða Kross Íslands greitt um 850.000 kr. fyrir námið, auk þess sem fyrir liggur frekari
kostnaður vegna starfsnáms utan héraðs á næstunni.

Aðstæður hafa nú breyst hjá RKÍ varðandi heimildir til greiðslu námsins, og leitar
Dýrafjarðardeildin því eftir styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum
vegna þessa.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að afgreiða erindið, en segir í bókun í vikunni að „Ísafjarðarbær hefur nú þegar greitt fyrir námskeið tveggja einstaklinga vegna sjúkraflutninga á Þingeyri, þar af er annar þeirra félagi í Dýrafjarðardeild Rauða kross Íslands.“

Ekki er ljóst af bókuninni hvort orðið var við erindinu eða því hafnað.

DEILA