Meðallaun 573 þúsund krónur á mánuði árið 2019

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru um 6,9 milljónir króna að meðaltali árið 2019 eða að jafnaði 573 þúsund krónur á mánuði að því er fram kemur í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Á vef Hagstofunnar segir jafnframt að við samanburð á meðaltekjum eftir aldurshópum sjáist að heildartekjur ársins 2019 voru langlægstar í aldurshópnum 16 til 24 ára eða um 231 þúsund krónur á mánuði.

Í því samhengi sé rétt að benda á að þar sé um að ræða einstaklingstekjur og margir í þessum aldurshópi búi enn í foreldrahúsum.

Þá voru heildartekjur hæstar í aldurshópnum 55 til 74 ára eða að jafnaði 669 þúsund krónur á mánuði.
Meðalheildartekjur 67 ára og eldri voru 517 þúsund krónur. Helmingur einstaklinga í þeim aldurshópi voru með um 410 þúsund krónur eða lægri heildartekjur á mánuði árið 2019.

Talnaefnið sem gögnin byggja á koma úr skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til ríkisskattstjóra.

DEILA