Í listinn: átelur uppsagnir tveggja starfsmanna bæjarins

Í listinn hefur sent frá sér greinargerð um uppsagnir tveggja starfsmanna bæjarins og átelja að ráðist skuli í þær án undangenginnar stefnumarkandi umræðu í bæjarstjórn um skýrslu Haraldar Líndals Haraldssonar  um rekstur bæjarins og  69 tillögur um úrbætur í rekstri Ísafjarðarbæjar, þar á meðal nokkrar tillögur um að sameina og leggja niður ákveðin störf.

Skýrslan var kynnt 7. maí fyrir bæjarstjórn og sviðstjórum  og var ákveðið, að sögn Í listans, að gera skýrsluna ekki opinbera að svo stöddu þar sem viðkvæm mál sem tengjast starfmönnum er þar að finna. Jafnframt var samstaða um að grípa ekki til uppsagna í ljósi ástandsins sem nú ríkir vegna COVID-19.

„Tillögurnar eru stefnumarkandi og þurfa umræðu meðal bæjarfulltrúa, en sú umræða hefur ekki enn farið fram og enn síður íbúafundurinn sem Haraldur Líndal, annar skýrsluhöfunda, hefur lagt til að verði haldin í kjölfar skýrslunnar. Margar af tillögunum eru góðar og gagnlegar, sumar þurfa umræðu og öðrum verður mögulega hafnað“ segir í yfirlýsingu Í listans.

Þá segir að Það hafi komið bæjarfulltrúm Í-listans verulega á óvart að heyra að tveir starfsmenn Ísafjarðarbæjar hefði fengið uppsagnarbréf síðustu daga, „á grundvelli skýrslunnar sem er órædd meðal bæjarfulltrúa og er enn trúnaðarmál.“

Bæjarfulltrúar Í listans hafa farið fram á að skýrslan verði gerð opinber en ekki hefur enn verið orðið við þvi.

Yfirmanni eignasjóðs sagt upp

Um þetta segir í yfirlýsingu Í listans:

„Ein af tillögum HLH ráðgjafar er að sameina tvö störf á umhverfis og eignasviði. Bæjarstjóri í krafti meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sagði upp yfirmanni eignasjóðs fyrir helgi eftir áratuga störf fyrir Ísafjarðarbæ og verður starfið væntanlega lagt niður án umræðu bæjarstjórnar og án þess að fyrir liggi nýtt samþykkt skipurit fyrir sviðið. Ef framkvæma á tillögu HLH ráðgjafar, hefði verið rétt að segja upp báðum starfsmönnum og auglýsa nýtt starf byggt á ígrundaðari starfslýsingu.“

Starf umhverfisfulltrúa lagt niður

Umhverfisfulltrúa bæjarins hefur verið sagt upp, samkvæmt því sem fram kemur í yfirlýsingunni. Þar segir:

„Á mánudaginn var umhverfisfulltrúa bæjarins sagt upp, án vitundar minnihluta bæjarstjórnar og án umræðu. Hvað verður þá um umhverfismál sveitarfélagsins, eru þau orðin aukaatriði? Hver á að sinna verkefnum sem eru á hendi fráfarandi umhverfisfulltrúa?“

Að lokum segja bæjarfulltrúar Í listans:

„Bæjarfulltrúar Í-listans geta ekki látið þessi vinnubrögð óátalin. Þau eru algjörlega á skjön við ráðleggingar skýrsluhöfunda, um að samstaða þurfi að ríkja um þær aðgerðir sem á að vinna áfram og kynningu aðgerðanna fyrir íbúum.“

DEILA