Flateyri: Skúrin samfélagsmiðstöð stofnuð

Fundarmenn á stofnfundinum í gær. Mynd: aðsend.

Stofnfundur Skúrinnar, samfélagsmiðstöðvar, fyrirtækjahótels og frumkvöðlaseturs var á Flateyri í gær. Í stjórn voru kjörin Steinunn G. Einarsdóttir formaður, Áslaug Guðrúnardóttir og Teitur Björn Einarsson.

Markmiðið var að safna 5 milljónum í hlutafé en Flateyringar gerðu gott betur þar sem 7 milljónir söfnuðust.

Skúrin verður frá 1. september opin fyrir samskipti, sköpun og frumkvæði fyrir þá sem þora. Þegar hefur verið gengið frá útleigu á húsnæði sem tryggir rekstur félagsins.

Hluthafar í Skúrinni eru 36 talsins sem leggja félaginu til 7 milljónir í hlutafé. Auk Ísafjarðarbæjar, Arctic Fish, Lýðskólans á Flateyri, Litla býlis, Húsa og fólks, Tröppu og Bræðranna Eyjólfssonar leggja 29 einstaklingar fram hlutafé. Upphaflega var markmiðið að safna 5 milljónum í hlutafé á móti 11 milljóna lánsvilyrði frá Landsbankanum til fjármögnunar á félaginu en Flateyringar gerðu gott betur. Hið nýstofnaða félag getur því lækkað fyrirhugaða lántöku sem þessu nemur.

Skúrin er sjálfssprottið samstarfsverkefni einstaklinga og fyrirtækja á Flateyri í samstarfi við Ísafjarðarbæ um rekstur samfélagsmiðstöðvar á Flateyri. Skúrin mun hýsa höfuðstöðvar Lýðskólans, skrifstofu Ísafjarðarbæjar á staðnum, skrifstofu fyrir hverfisráð Önundarfjarðar, skrifstofu verkefnastjóra ríkisstjórnarinnar um málefni Flateyrar og aðstöðu framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga ásamt aðstöðu fyrir fjölmörg fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem lifa og starfa á Flateyri eða dvelja þar reglulega. Jafnframt er boðið upp á aðstöðu fyrir fólk og frumkvöðla til lengri og skemmri tíma sem vill koma og upplifa einstaka kraftbirtingu og sköpun Önundarfjarðar.

DEILA