Fjölmenningarsetur – hvað vill Framsókn í raun og veru?

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, skrifaði pistil sem birtist hér á BB.is síðastliðinn laugardag (4.7), pistillinn kallar á viðbrögð.

Í pistlinum heldur þingmaðurinn því fram að Miðflokkurinn hafi beitt sér fyrir því að styrking fjölmenningarseturs á Ísafirði yrði sett á ís.  Þetta er kúnstug afstaða hjá þingmanni sem þann 3.júní 2019 kaus með ákvörðun um að stofna ráðgjafarstofu innflytjenda í Reykjavík, í stað þess að styrkja starf Fjölmenningarsetursins á Ísafirði, til samræmis við það sem Miðflokkurinn talaði fyrir.

Til upprifjunar sagði undirritaður í umræðu um það mál: „Virðulegur forseti. Efnisatriði málsins eru góðra gjalda verð en staðreyndin er sú að það er starfandi prýðileg stofnun á Ísafirði sem er kölluð Fjölmenningarsetur. Afstaða okkar í Miðflokknum er að skynsamlegra væri að styðja við það starf sem þar er unnið og hugsanlega útvíkka það með einhvers lags útibúi á höfuðborgarsvæðinu, ef þörf þykir á. Við getum ekki tekið undir að stofna nýja ríkisstofnun. Við munum greiða atkvæði gegn þessu máli en það er ekki út af efnisatriðum þess heldur teljum við að mun skynsamlegra væri að styrkja Fjölmenningarsetrið á Ísafirði en að búa til nýja ríkisstofnun.“

Ef þetta sýnir neikvæðan hug Miðflokksins til Fjölmenningarseturs á Ísafirði, þá er orðið vandlifað.

Það var skynsamlegt að fresta afgreiðslu frumvarps félagsmálaráðherra, sem Halla Signý vísar til, vegna þess hversu illa það var unnið, meðal annars með tilliti til kostnaðarmats, sem var í besta falli fráleitt og gaf það helst til kynna að Framsóknarflokkurinn vildi ekki ræða hvað raunverulega var verið að leggja til í málinu.

Í greinargerð með frumvarpinu er því haldið fram að kostnaðarauki vegna frumvarpsins verði 19,4 milljónir á ári hjá Fjölmenningarsetri, við það mat gerðum við í Miðflokknum ekki athugasemd, heldur það að alveg var skautað fram hjá öðrum kostnaði sem af lagabreytingunni hlýst. Rétt er að halda því til haga að Samband íslenskra sveitarfélaga telur að þarna sé um vanmat að ræða á viðbótar kostnaði Fjölmenningarseturs.

Við verðum að umgangast fjármuni ríkissjóðs með skynsamlegum hætti, fjármuni sem teknir hafa verið af sjálfsaflafé einstaklinga og frá fyrirtækjum landsins.

Kjarnaatriðið í frumvarpinu var að stækka þann hóp verulega sem nýtur aukinnar fyrirgreiðslu á kostnað ríkissjóðs.  Með frumvarpinu átti að veita fólki sem kemur til landsins á eigin vegum og fær hæli eða uppfyllir skilyrði um alþjóðlega vernd sömu réttindi til fyrirgreiðslu og svokölluðum kvótaflóttamönnum, hvað t.d. framfærslu og húsnæðismál varðar, slíkar umsóknir eru þegar orðnar hlutfallslega fleiri á Íslandi en í nokkru hinna Norðurlandanna.

Til að setja skilaboð frumvarpsins í samhengi, þá fá allir sem koma frá Venesúela, því góða landi sem skoðanabræður VG, sósíalistarnir, hafa eyðilagt á undanförnum árum, dvalarleyfi óski þeir eftir því.  Dettur einhverjum til hugar að loforð um þá fyrirgreiðslu sem þarna átti að lögfesta spyrjist ekki út til landa þar sem stjórnvöld hafa klúðrað efnahagsmálum með jafn yfirgripsmiklum hætti og raunin er?

Við eigum að taka vel á móti þeim flóttamönnum sem við tökum á móti, styðja við að þeir aðlagist samfélaginu og verði virkir þátttakendur í því, bæði hvað atvinnuþáttöku varðar og mennta- og menningarlega þætti.  Við getum ekki gert allt fyrir alla, en gerum það sem við getum vel.

Bergþór Ólason

Þingmaður Miðflokksins

 

 

 

 

 

DEILA