FEROCIOUS GLITTER II : Gabríela Friðriksdóttir 18.7. – 2.8.

Laugardaginn 18. júlí opnar sýning á verkum Gabríelu Friðriksdóttur í sýningaröðinni Ferocious Glitter II í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði.

 

Ferocious Glitter II er seinni hlutinn í röð tíu tveggja vikna sýninga í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði. Fyrri hluti seríunnar fór fram sumarið 2019 og þá voru sýnd verk Peter Schmidt, Svövu Skúladóttur, Ingólfs Arnarssonar, Karin Sander og Rögnu Róbertsdóttur. Sýningarnar tengjast allar Ísafirði og menningar- og listasögu bæjarins. Sýningarstjóri er Gavin Morrison. Hraðar skiptingar sýninganna eru að hluta til svar við árstíðabundnum sviftingum á norlægum slóðum þar sem sumarkoman með vaxandi dagsbirtu glæðir íbúana auknum krafti og sköpunargleði. Þessi orka er endurspegluð í örum skiptingum í bland við sterkan fókus sýningarrýmisins og miðar að því að skapa kraftmiklar aðstæður sem auðvelda skoðun sagna og samtímaverka í návígi en með víðtækari vitund um tengsl bæjarins við sköpunina sem hann hefur alið.

 

Þessi níunda sýning í Ferocious Glitter röðinni – og sú fjórða á þessu ári – sýnir verk Gabríelu Friðriksdóttur sem ættuð er frá Hnífsdal og dvaldi þar mörg sumur hjá afa sínum og ömmu. Hún hefur haldið tengslum við svæðið æ síðan og kemur reglulega til dvalar í Hnífsdal. Gabríela setti upp sýningu í sama rými um vetur fyrir rúmum tuttugu árum. Um tengslin milli þessara tveggja sýninga segir Gabríela eftirfarandi sögu:

 

,,Ég sýndi síðast í þessu rými, sem þá hét Slunkaríki, árið 1999. Systkini afa míns voru mörg á lífi á þeim tíma en þau voru frá Hnífsdal. Þetta frændfólk mitt var mjög vonsvikið yfir því hvað ég sýndi fáar myndir. Sýningin sem hét ,,Are You Ready to Rock’’ samanstóð af þremur verkum á vegg og einum skúlptúr á gólfi. Viðfangsefnið var snjór og ég var mjög ánægð með útkomuna sem var auk þess með hljóði sem barst upp um lúgu í gólfinu. Frændfólkið mitt í Hnífsdal tók til við að lauma peningaseðlum í vasa minn því þau töldu að þessi sýning hefði enga burði til að koma vel út fyrir mig fjárhagslega. Mér fannst þessi minning svo sæt og skemmtileg og gaf því fólkinu mínu, sem nú allt er horfið yfir móðuna miklu, loforð um að búa til sýningu með fullt af myndum.’’

 

Gabríela Friðriksdóttir, fædd 1971, útskrifaðist frá Skúlptúrdeild Myndlista og Handíðaskóla Íslands vorið 1997 og var gestanemandi við AVU akademíuna í Prag veturinn 1998.  Hún vinnur jöfnum höndum með teikningar, málverk, skúlptúr, innsetningar og myndbandsverk.  Verk Gabríelu eru oft á mörkum dags og draums eða á mörkum hins óhlutbundna og hins hlutbundna og vinnur hún gjarnan útfrá ýmsum andlegum kerfum, fornum og nýjum.  Í verkum hennar er samstarf á milli hinna ýmsu listgreina  einkennandi og hún vinnur gjarnan stærri verk sín og innsetningar með tónlistarmönnum, dönsurum, kvikmyndagerðamönnum og arkítektum.  Gabríela hefur sýnt verk sín víða um heim og var verk hennar „Versations Tetralógía“ framlag íslands til Feneyjatvíæringsins árið 2005.  Hún hefur m.a. sýnt verk sín í Centre Pompidou, Prospectif Cinema,París;  Migros Museum, Zurich; Museum of Contemporary Art, Tokyo; Kunsthaus Graz; La Biennale de Lyon;  Schirn Kunsthalle, Frankfurt; Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur.

DEILA