Rauði krossinn: skipulagsbreytingar

Björg Kjartansdóttir sviðsstjóri hjá Rauða krossinum segir að uppsagnir svæðisfulltrúa séu vegna skipulagsbreytinga í kjölfar nýrrar stefnu samtakanna sem samþykkt hafi verið í maí síðastliðnum. Þar sé lögð áhersla á að færa starfið nær heimabyggð á sjálfbæran hátt.

Svar Bjargar í heild:

 

„Rauði krossinn hefur þurft að bregðast við breyttum aðstæðum, þá sér í lagi tekjufalli í vetur vegna farsóttarinnar og þurft endurskipuleggja starfsemi sína.

 

Hins vegar eru 39 deildir um allt land sem munu halda áfram öflugri starfsemi sinni. Mikilvægt er einnig að taka skýrt fram að deildir Rauða krossins á Vestfjörðum munu starfa áfram í óbreyttri mynd og sinna verkefnum í nærsamfélaginu þrátt fyrir að svæðisfulltrúi láti af störfum.

 

Ástæðan fyrir uppsögnum svæðisfulltrúa Rauða krossins var í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er að verða áherslu- og skipulagsbreytingar hjá Rauða krossinum með nýrri stefnu sem samþykkt var á aðalfundi í maí 2020. Áherslan er að færa starfið enn nær heimabyggð á sjálfbæran hátt. Hin ástæðan er tekjusamdráttur sem nauðsyn er að bregðast við. Skipulagsbreytingar sem ráðist hefur verið í, eiga að tryggja að þjónusta félagsins og þátttaka í almannavörnum skerðist ekki.

 

Varðandi framhaldið þá vil ég fullvissa þig um að Rauði krossinn mun hér eftir sem hingað til sinna sínu hlutverki í almannavörnum og vinna þétt með öllum sveitarfélögum hringinn í kringum landið.

 

Varðandi spurningu þína um nýjan starfsmann, þá var nýlega ráðinn starfsmaður er mun sinna viðbúnaðarmálum Rauða krossins um allt land. Hann mun sinna öllum deildum félagsins og tryggja að félagið geti áfram sinnt faglegu starfi í kjölfar náttúruhamfara, hópslysa og annarra alvarlegra atburða í skipulagi almannavarna. Þá verður verkefni starfsmannsins að efla félagið í að veita heilbrigðisyfirvöldum öfluga stoðþjónustu vegna faraldra og fjöldasýkinga.

 

Að lokum vil ég taka fram að fjöldi starfsmanna félagsins styður við deildir með ýmsum hætti svo þær geti sinnt nærsamfélagsþjónustu á hverjum stað. Félagið er síður en svo að draga sig úr verkefnum á landsbyggðinni heldur tryggja að allar deildir félagsins geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum sem þær sinna í öllum byggðarlögum landsins.“

DEILA