Vestri teflir fram meistaraflokki kvenna í körfu í fyrsta sinn

Stúlknaflokkur Kkd. Vestra verður uppistaðan í hinum nýja meistaraflokki Kkd. Vestra sem tekur slaginn í 1. deild á komandi leiktíð. Ljósmynd tekin tímabilið 2018-2019. Þjálfari Yngvi Páll Gunnlaugsson. Mynd: Vestri.is

Körfuknattleiksdeild Vestra teflir fram meistaraflokki kvenna í 1. deild á næsta leiktímabili og er það fyrsti kvennameistaraflokkurinn í sögu deildarinnar. Stjórn kynnti ákvörðun sína á nýafstöðnum aðalfundi. Forveri kkd. Vestra, Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar, á sér langa sögu í kvennaboltanum en nú eru fimm ár síðan að síðast var starfræktur meistaraflokkur kvenna í körfunni fyrir vestan. Þá lauk liðið keppni í þriðja sæti 1. deildarinnar með bandaríska leikmanninn Labrenthiu Murdoch Pearson í broddi fylkingar.

Þjálfari meistaraflokksins verður Pétur Már Sigurðsson, sem einnig þjálfar karlaliðið. Pétur Már er reynslubolti úr þjálfun í kvennakörfunni og stýrði m.a. kvennaliðum Skallagríms, Fjölnis og loks Stjörnunnar, þar sem hann var í þrjú ár við góðan orðstír áður en hann kom vestur í fyrra. Pétur er með BSc gráðu í íþrótta- og heilsufræðum ásamt kennsluréttindum. Hann hefur áður verið aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla og er nú aðalþjálfari U20 ára kvennalandsliðsins. Pétur var einnig þjálfari meistaraflokks kvenna hjá KFÍ 2011-2013 og var hársbreidd frá því að fara með liðið upp í úrvalsdeild. Meistaraflokkur var ekki starfræktur næsta leiktímabil á eftir en var síðan endurvakinn fyrir tímabilið 2014-15. Sá hópur spilaði þó aðeins það eina tímabil. Allar götur síðan hefur það verið markmið deildarinnar að efla kvennakörfuna þannig að grundvöllur yrði fyrir nýjum meistaraflokki. Sá tími er nú loks kominn.

Hinn nýja meistaraflokk munu að mesta skipa 15-18 ára leikmenn Vestra sem hafa gengið upp alla yngri flokka og kepptu í stúlknaflokki á síðasta tímabili undir stjórn Nemanja Knezevic. Leitað verður eftir frekari liðsstyrk í sumar og er vert að vekja athygli ungra körfuknattleikskvenna á skólavist við Menntaskólann á Ísafirði, þar sem starfrækt er afreksíþróttabraut. Þar hefur karfan verið öflug og fjölmenn. Heimavist skólans er öll nýuppgerð og allir nemendur eru í sérherbergi. Einnig þykir mötuneytið með eindæmum gott. Það myndi því ekki væsa um ungar afrekskonur sem t.d. vilja spreyta sig í smá fjarlægð frá heimahögunum áður en mögulega er haldið út heim í frekari spilamennsku.

DEILA