Vegagerð á Flateyri og í Vestfjarðagöngum á morgun

Í tilkynningu frá Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas hf kemur fram að Vegagerðin hefur gefið heimild til eftirtalinna verka ef veður leyfir:

Flateyri

Miðvikudaginn 3. júní stendur til að fræsa og malbika Hafnarstræti, milli Ránargötu og Túngötu, á Flateyri. Gatan verður lokuð fyrir alla umferð meðan á framkvæmdum stendur og viðeigandi merkingar settar upp skv. viðhengdu lokunarplani.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi frá kl. 9:00 til kl. 18:00.

Vestfjarðagöng

Dagana 3.-6. júní stendur til að fræsa upp malbik í Vestfjarðargöngum. Vinna fer fram á nóttunni frá 22:00 til 7:00. Byrjað verður að fræsa í Botnsdalslegg, frá gangnamuna að gatnamótum og tekur það tvær nætur. Eftir það verða fræstir tveir kaflar í Breiðadalslegg sem tekur eina nótt. Á meðan framkvæmdum stendur í Botnsdalslegg verður lokað fyrir alla umferð um Botnsdalslegg en opið verður á milli Breiðadals og Tungudals. Sama á við um vinnu í Breiðadalslegg, lokað fyrr alla umferð um Breiðadalslegg en opið milli Botnsdals og Tungudals. Björgunarsveit mun vakta lokanir og aðstoða ef lögregla, sjúkrabílar, slökkvilið og annar forgangsakstur þarf að komast í gegn.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi frá kl. 22:00 til kl. 7:00 hverja nótt fyrir sig.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin geta verið þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.