Tveir skólar á Vestfjörðum hljóta styrk frá Forriturum framtíðarinnar

Af 29 skólum sem í ár hljóta styrki úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar eru tveir á Vestfjörðum, það eru Tálknafjarðarskóli og Bíldudalsskóli.

Forritarar framtíðarinnar er sjóður sem stofnaður var 2014 með þann tilgang að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins í ár eru RB, Landsbankinn, CCP, Össur, Íslandsbanki og Webmo design.

Vitað er að mikil þörf er á sjóðnum til að tengja saman viðskiptalífið, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila með það að leiðarljósi að sem flest ungmenni öðlist þá grunnhæfni sem til þarf til að verða forritarar framtíðarinnar.

„Við stöndum frammi fyrir því að hér er skortur á fólki menntuðu í upplýsingatækni. Börn og unglingar verja miklum tíma í notkun tækni en brýnt er að þjálfa og mennta þau til að nýta sér tæknina í víðari skilningi – og spilar sjóðurinn þar mikilvægt hlutverk. Háskólar landsins útskrifa tæknimenntað fólk sem annar um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins og á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið. Á sama tíma er mikill skortur á tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins,” segir Sigfríður Sigurðardóttir formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.

DEILA