Teigsskógur: kröfu Landverndar um bráðabirgðafrestun hafnað

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur með úrskurði, sem felldur var síðastliðinn föstudag, hafnað kröfu Landverndar um stöðvun framkvæmda við nýjan veg um Gufudalssveit.

Eftir stendur að úrskurðarnefndin á eftir að úrskurða um aðalkröfu Landverndar sem er að framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni, sem gefið var út 25.2. 2020, verði fellt úr gildi. Hafði Landvernd krafist þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til úrskurður félli.

Úrskurðarnefndin segir að hún geri ráð fyrir að meðferð kærumálsins verði lokið innan lögboðins meðferðartíma eða í öllu falli áður en seinni áfangar framkvæmdarinnar hefjast haustið 2020.

Vegagerðin lagði fyrir úrskurðarnefndina áform sín um framkvæmdir og miðar nefndin við þau í úrskurði sínum. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdinni verði skipt í nokkra áfanga.  Jafnframt lýsti Vegagerðin því yfir að upplýsa kæranda og nefndina um upphaf framkvæmda með hæfilegum fyrirvara áður en þær hefjast. Segir úrskurðarnefndin að jafnvel þótt komi til skoðunar að stöðva framkvæmdir kunni að vera að það eigi ekki við um alla framkvæmdina, enda ljóst að einstakir framkvæmdaáfangar nýtist óháð því hvaða leið verði að lokum farin af þeim fimm sem teknar voru til umhverfismats.

Vegagerðin segir í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar að það þurfi að bjóða út, semja við verktaka og landeigendur og því engar forsendur til þess að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Fyrstu útboð verða í júní og framkvæmdir hefjist í sama mánuði. Þar sé um að ræða endurbyggingu á 5 km kafla í Gufufirði og einnig stefnt að framkvæmdum við 6 km undirbyggingu Djúpadalsvegar. Aðrar framkvæmdir munu ekki hefjast fyrr en haustið 2020, sumarið 2021 og sumarið 2022.

Um framkvæmdir sumarsins segir úrskurðarnefndin að endurbygging vegarins í Gufufirði sé aðeins að malavegur verði með bundnu slitlagi og að fyrirhugaður vegur um Djúpadal muni hvorki liggja um friðlýst svæði né svæði á náttúruminjaskrá og umsagnir um þann kafla bendi ekki til þess að nauðsyn beri til að stöðva þá vegargerð.

Þá liggi fyrir samkvæmt framkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar að ekki  verði farið í lagningu brúa og þveranir fyrr en eftir sumarið 2020 og ekki verið framkvæmt í Teigsskógi í sumar.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar varð því að hafna kröfunni um stöðvun framkvæmda. Stefnt er að því að úrskurður liggi fyrir í haust. Tekur nefndin fram að Vegagerðin beri alla áhættu af því að hefja framkvæmdir á grundvelli hins kærða leyfis áður en endanleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir.

DEILA