Tálknafjörður: sveitarstjórn setur skilyrði fyrir nýrri brú

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti á fundi sínum í síðustu viku framkvæmdaleyfi til Vegagrðarinnar fyrir færslu vegar og nýrri brú yfir Botnsá með fjórum tölusettum skilyrðum.

Framkvæmdin er ein af covid 19 flýtiframkvæmdunum og verður gerð tvíbreið brú í stað einbreiðrar sem er nú yfir ána í botni Tálknafjarðar.

Skilyrðin eru sett til þess að þrýsta á gerð jarðganga milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar um Mikladal. Vill sveitarstjórnin að vegurinn liggi fyrir botn Tálknafjarðar þannig að vegurinn liggi yfir fjörðinn og upp Höfðadal sem er líkleg staðsetning jarðgangnamunna.

Er vísað í fund með starfsmönnum Vegagerðarinnar þann 27.02.2020 þar sem sveitarstjórn lýsti yfir eindregnum vilja til að setja jarðgöng milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar á aðalskipulag Tálknafjarðarhrepps sem er í endurskoðun.

Bókun sveitarstjórnar er svohljóðndi:

 

1. Endurnýjun vegar um Mikladal milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar er löngu orðin
tímabær og ljóst að vegurinn um Mikladal er orðinn algjörlega ónýtur og hættulegur
umferð, sérstaklega umferð stórra bíla sem eykst sífellt og á eftir að aukast enn meir
með auknum umsvifum fiskeldis á Vestfjörðum. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps
setur sem skilyrði fyrir framkvæmdaleyfinu að Vegagerðin upplýsi sveitarfélögin á
sunnanverðum Vestfjörðum strax á þessu ári um þær endurbætur sem Vegagerðin
hlýtur að hafa skoðað á þessari leið þannig að sveitarfélögin viti hver stefna
Vegagerðarinnar er varðandi þennan vegarkafla til framtíðar.

2. Bygging brúarinnar og færsla vegarins er tímabundin ráðstöfun vegna
öryggissjónarmiða vegfarenda og miðast eingöngu við að tryggja bætt öryggi og
auðveldari akstur um þennan vegarkafla í Norður-Botni sem hefur lengi verið
stórhættulegur og slysagildra fyrir vegfarendur. Veiting þessa framkvæmdaleyfis gefur
engin frekari vilyrði fyrir áframhaldandi vegaframkvæmdum í þessu vegstæði þar sem
jarðgöng eru eina skynsamlega framtíðarleiðin milli þessara byggðarlaga.

3. Þessi lagfæring vegarkaflans skal aldrei tekin gild sem rök Vegagerðarinnar fyrir
drætti eða höfnun á vegabótum samkvæmt stefnu sveitarstjórnar varðandi
framtíðarlegu vegarins hvað sem líður kostnaði og afskriftum lagfæringarinnar.

4. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ætlast til þess af Vegagerðinni að samtal um
jarðgangakost milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar hefjist sem allra fyrst og eigi síðar
en næsta vetur 2020-2021 með það að markmiði að koma jarðgöngum á þessu svæði
inn í samgönguáætlun eins fljótt og mögulegt er. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps
mun beita sér fyrir samtali við bæjarstjórn Vesturbyggðar um jarðgöng á þessu svæði
strax að sumarleyfum loknum og boða Vegagerðina á sameiginlegan fund við fyrsta
mögulega tækifæri í haust til að koma þessum brýnu samgöngubótum á rekspöl.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkir samhljóða framkvæmdaleyfi fyrir
endurbætur á núverandi vegi og lagningu nýs vegar ásamt byggingu nýrrar brúar á
Bíldudalsvegi (63) um Botnsá í Tálknafjarðarhreppi með ofangreindum skilyrðum.

 

DEILA