Sjómenn til hamingju með daginn

Frá sjómannadeginum í Bolungavík í fyrra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sjómannadagurinn er í dag, sunnudaginn 7. júní.

Dagurinn á sér orðið langa sögu. Á vef Þjóðkirkjunnar má lesa að fyrsta sjómannamessan hafi verið haldin á Akranesi árið 1925. Frá þeim tíma hefur sá siður fest sig kyrfilega í sessi og víða má sækja sjómannamessur.

Það var hins vegar í júní 1938 sem fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík og á Ísafirði. Á vordögum 1987 var sett lög um sjómannadaginn og hann þannig festur endanlega í sessi sem lögbundinn hátíðisdagur.

Í lagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi fylgdi þessi greinargerð:

„Tilgangur dagsins var frá upphafi að halda árlega hátíð sjómönnum til heiðurs og minnast jafnframt látinna sjómanna, einkum þeirra er létust af slysförum á sjó. Þessum merkjum hefir síðan verið haldið á lofti. Sjómannadagurinn hefir frá upphafi verið almennur hátíðisdagur í útgerðarstöðum um land allt. Samt sem áður hefur hann ekki verið allsherjarfrídagur sjómanna.“

og ennfremur sagði þar:

„Nú þegar nær hálf öld er liðin síðan sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur
sýnist hins vegar tímabært að koma fastri skipan á frí sjómanna þann dag. Væri það táknræn kveðja Alþingis og þjóðarinnar allrar til sjómannastéttarinnar á þessum tímamótum. Í frumvarpi þessu er því slegið föstu að sjómannadagurinn skuli vera almennur frídagur sjómanna.“

Hátíðahöld eru víða á Vestfjörðum í dag í tilefni dagsins. Þau eru þó með öðru og takmarkaðra sniði en venjulega vegna kórónafaraldursins.

Kl. 10 verður safnast saman við Hnífsdalskapellu og gengið fylktu liði undir fánum og út í Hnífsdalskirkjugarð. Þar flytur sóknarpresturinn hugleiðingu og fer með bæn. Minnst verður látinna sjómanna og blómsveigur lagður að sjómannsstyttunni.

Á Ísafirði kl. 11 verður helgistund við sjómannastyttuna á Eyrartúni, Ísafirði. Blásaraflokkur flytur tvö lög. Sóknarpresturinn fer með hugvekju og bæn. Minnst verður látinna sjómanna og blómsveigur lagður að styttunni.

Á Patreksfirði verður messa kl 11 og eftir hana skrúðganga frá kirkju að minnisvarða um látna sjómenn.

Í Bolungavík verður hátíðarguðsþjónusta í Hólskirkju kl 14 og verður hún send út á vefinn. Að lokinn messu verður lagður blómsveigur að minnismerkjum sjómanna.

Á Suðureyri verður sjómannamessa kl 14.

Bæjarins besta óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og óskar þeim velfarnaðar í störfum sínum.

DEILA