Reykjanes: ferðaþjónustan tengd hitaveitunni í óleyfi

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að Ferðaþjónustan í Reykjanesi hafi vorið 2018, hafnaði því að leyfa starfsmönnum Orkubúsins að tengja hitaveituna við lagnir að hóteli og sundlaug.  Hefur Ferðaþjónustan því ekki fengið reikninga vegna heitavatnsnotkunar.

Ferðaþjónustan í Reykjanesi er lokuð vegna deilna um nýtingu á heitu vatni fyrir reksturinn.

„Eftirgrennslan Orkubúsins hefur hins vegar leitt í ljós að búið er að tengja lagnir Ferðaþjónustunnar, að sundlaug og hóteli, við veituna án aðkomu starfsmanna Orkubúsins og án leyfis“  segir Elías.

Aðspurður segir Elías Jónatansson að Í stuttu máli verði ekki séð að málið snúi að Orkubúinu, „enda hefur Ferðaþjónustan ekki haft samband við OV vegna málsins.“

 

Forsaga málsins er að sögn Elíasar þessi:

„Orkubúið sendi Ferðaþjónustunni bréf í apríl 2017 til að mæta öryggiskröfum og koma á mælingum á notkun á heitu vatni í Reykjanesi.  Jafnframt var rætt um það í bréfinu að koma þyrfti á samningi á milli aðila til að jafnræðis gætti á meðal viðskiptavina Orkubúsins. Í umfjöllun um gjaldtöku í bréfinu var rætt um að gjaldið tæki mið af þeim fjárfestingum sem OV hefur farið í vegna nýtingarinnar.  Rætt var um að hafa fast árlegt gjald, en síðar yrði tekið upp breytilegt gjald sem tæki mið af notkun, enda væri þá komin reynsla á raunverulega notkun.  Mæling á notkun mundi hvetja til góðrar nýtingar á jarðvarmanum.

Gera þurfti breytingar á lögnum og setja á greiniloka við borholu og var Ferðaþjónustunni tilkynnt um að loka þyrfti fyrir hitaveituna á meðan lögnunum væri breytt.  Þar sem ferðamannatíminn var um það bil að hefjast var ákveðið að fresta þessum framkvæmdum í eitt ár og fara í þær vorið 2018 í staðinn.  Vorið 2018 var jafnframt fundað með ferðaþjónustunni varðandi hugsanlegan samning á milli aðila.  Ekki náðust samningar á þeim fundi og hafnaði Ferðaþjónustan alfarið að greiða fyrir heitt vatn.

Þegar farið var í breytingar á lögnum vorið 2018, hafnaði Ferðaþjónustan að leyfa starfsmönnum Orkubúsins að tengja veituna við lagnir að hóteli og sundlaug og gátu því starfsmenn OV ekki lokið því verki.“

Ferðaþjónustan taldi sig hafa nýtingarrétt á jarðhita í Reykjanesi og sótti í framhaldi af því um nýtingarrétt til Orkustofnunar.  Það varð úr að Orkustofnun veitti Ferðaþjónustunni nýtingarréttinn.  Orkubúið kærði þá ákvörðun til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála og var ákvörðun Orkustofnunar hnekkt og nýtingarleyfið fellt úr gildi með úrskurði ÚUA 22. ágúst 2019.

„Í raun er þetta ástand óviðunandi fyrir Orkubúið og vonandi verður hægt að ná niðurstöðu fyrr en seinna með samningum á milli aðila“ segir Elías Jónatansson, Orkubússtjóri að lokum.

Birgir Gunnarsson: Ekkert erindi fengið

Jón Heiðar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar segir í Morgunblaðinu á laugardaginn að hann teldi Ferðaþjónustuna eiga nýtingarréttinn samkvæmt kaupsamningi við ríkið og lóðarsamningi við Ísafjarðarbæ. Hann kvaðst hafa haft samband við Ísafjarðarbæ bréflega  í nóvember á síðasta ári og síðan í síma og með tölvupósti en engin svör fengið. Annað bréf hafi svo verið sent 1. júní sl.  án árangurs.

„Ég hef ekki fengið neitt erindi frá þeim eða skilaboð um að hringja þannig að ég kannast ekki við málið. Þessi frétt í mbl kom því flatt uppá mig.“ Birgir sagðist mundu athuga með fyrri samskipti en allavega væri ekkert komið til hans.

DEILA