Réttlæti og friður kyssast

Fermingarbörn velja sér gjarnan ritningarvers til að segja upphátt þegar þau fermast.  Sum fá hjálp frá forledrum, ömmum og öfum við að velja fallegt vers.  Fyrir nokkrum árum síðan sagði stúlka þetta fallega ritningarvers úr 85. Davíðssálmi:  “Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.”  Mér fannst þessi ritningargrein svo falleg að ég lærði hana strax utanað og hefur hún verið mér hjartfólgin síðan.

Um síðastliðna helgi kom þessi ritningargrein upp í huga mér þegar ég fylgdist með fréttum frá Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þar í landi hefur verið mikil ólga og reiði meðal fólks vegna þess að svartur maður lést þegar lögregla handtók hann úti á götu.  Skammt er síðan annar svartur maður var skotinn af öryggisvörðum þar sem hann var úti á götu að skokka.  Fólk er ekki aðeins að mótmæla kynþáttafordómum og hatri, sem birtist í þessum atvikum, sem fest voru á filmu, heldur því að svo virðist sem svartir menn búi ekki við sama réttaröryggi og aðrir þegnar.

Friður á hebresku er “shalom”.  Og shalom á hebresku merkir ekki bara friður heldur einnig jafnvægi og stöðuglyndi.  Þegar við erum í jafnvægi þá ríkir friður í sálinni.  Þegar samfélagaið er í jafnvægi, þegar öllum er tryggt réttlæti og öryggi þá er friður í samfélaginu.  Í Bandaríkjunum hefur friðurinn í samfélaginu rofnað vegna þess að fólki finnst að réttlæti minnhlutahópa sé ekki tryggt.  Hið sama gerðist reyndar í Arabalöndunum fyrir nokkrum árum síðan.  Þá þusti fólk út á götur og torg til mótmæla kúgun og einræði.

Fréttir af svona mótmælum eru yfirleitt hræðilegar á að horfa.  Það er reiði, æsingur og uppþot.  Stundum eru eigur annarra skemmdar og hermenn og lögrelgumenn beita kylfum og táragasi.  En það var ein undantekning frá þessu.  Í sjónvarpinu sást lögreglustjóri koma út á götu og tala við fólkið.  Hann tók undir með því og sagði að svona ætti þetta auðvitað ekki að vera í landinu þeirra.  Hann og lögreglumennirnir myndu ganga með fólkinu því þeir vildu hafa réttlæti eins og það.  Og skyndilega þá var eins og ritningarorðið góða yrði að raunveruleika:  Elska og trúfesti mættust, réttlæti og friður kyssust.  Og lögrelsustjórinn stakk upp að fólk gengi með honum til kirkju til að biðjast fyrir.

Það er hlutverk bæði ríkisvalds og borgara að tryggja það að réttlæti og friður ríki í samfélaginu.  Það gerist með því að sömu lög og reglur gildi um alla þegna án tillits til litarháttar eða trúar.  Réttlæti og friður haldast ávallt í hendur.

Samkvæmt kenningum Biblíunnar þá erum við öll bræður og systur því öll eigum við Adam og Evu að föður og móður!  Þess vegna er mannkærleikur samofinn kristinni trú.

 

Magnús Erlingsson

DEILA