Ódýrustu hjúkrunarrýmin á Hólmavík

Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, alþingismanni Miðflokksins um kostnað við hjúkrunar- og bráðarými í átta heilbrigðisstofnunum kemur fram að sólarhringskostnaður á rúmi við hjúkrunardeildina á Hólmavík er lægstur. Hver sólarhringur á deildinni sem er með 10 rúm kostar 28.501 kr.

Sleginn er sá varnagli í svörunum að erfiðlega hafi gengið að gera svörin samanburðarhæf milli stofnana og varð niðurstaðan að hver stofnun svaraði á eigin forsendum. Verður því að meta tölurnar í því ljósi.

Tekið er fram varðandi Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sem Hólmavík er hluti af, að sameiginlegur kostnaður svo sem eldhús og ræstingar séu ekki reiknaðar með í kostnaðinum á hjúkrunardeildinni.

Hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eru 57 hjúkrunarrými á fjórum stöðum, Ísafirði, Bolungavík, Þingeyri og Patreksfirði og er gefin upp sólarhringskostnaður við þau sameiginlega. Er hann 36.937 kr.  Kostnaðurinn er þannig fundinn að heildargjöldum hjúkrunar og sjúkrasviðs á rekstrarárinu 2019, að teknu tilliti til sértekna, er deilt niður á fjölda bráða og hjúkrunarrýma.

Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands er reiknaður allur kostnaður og kostar sólarhringurinn í hjúkrunarrými á Egilsstöðum 44.343 kr og 48.859 kr á Seyðisfirði. Hins vegar er sameiginlegur kostnaður ekki reiknaður af hjúkrunarrýmum á Nestkaupstað og þar er gefinn upp 32.054 kr/sólarhring. Í Grindavík er 20 rúma hjúkrunardeild sem kostar 43.437 kr sólarhringurinn. Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur hjúkrunardeildir á Selfossi og í Vestmannaeyjum og gefur 43.308 kr kostnað fyrir hvern sólarhring.

Samkvæmt svarinu eru dýrustu hjúkrunarrýmin á Vífilsstöðum 53.712 kr. sólarhringurinn.

Allur kostnaður virðist vera innifalinn alls staðar nema á Hólmavík og Neskaupstað en ekki kemur fram hvort sértekjur eru dregnar frá kostnaði eins og gert er hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

DEILA