Krossneslaug styrkt um nærri 4 m.kr.

Eins og frá var greint á bb.is á laugardaginn veitti verkefnið áfram Árneshreppur styrki til 13 verkefna samtals að upphæð 14,9 milljónir króna.

Stærsti styrkurinn 3.880.000 kr er til endurbótar á búningsaðstöðu við Krossneslaug. Hún var gerð árið 1954 og rétt fyrir ofan fjöruna svo gestir horfa út yfir hafflötinn þegar þeir slaka á í lauginni. Það er ungmennafélagið Leifur heppni sem sér um rekstur laugarinnar.

Baskasetur í Djúpavík

Annað stórt verkefni er uppbygging á Baskasetri sem mun fjalla um veru Baska hér á landi, en þeir stunduðu sjávarnytjar hér um langt skeið fyrr á öldum. Einnig verður saga Spánverjavíganna rakin, en sýslumaðurinn Ari í Ögri lét elta uppi og drepa áhafnir þriggja baskneskra skipa sem höfðu farist í Reykjarfirði. Setrið og sýningin verður sett upp í risavöxnum lýsistanki í gömlu síldarverksmiðjunum í Djúpavík. Verkefnið fékk styrkvilyrði fyrir 2.500.000 kr.

Jógasetur í Djúpavík

Kristjana Svarfdal fékk styrk upp á 1.500.000 kr. til að koma upp jógasetri í gamla renniverkstæðinu í síldarverksmiðjubyggingunum í Djúpavík. Bjart og fallegt rými sem gæti orðið einstakt þegar það verður búið að taka það í gegn og mun örugglega verða góð upplifun að stunda jóga í friðsældinni sem þar ríkir.

Markaðsefni: hönnun og útgáfa

Ferðamálasamtök Árneshrepps fengu myndarlegan styrk, 1.400.000 kr. til hönnunar og útgáfu á markaðsefni til að laða fólk til Árneshrepps. Að samtökunum standa allir ferðaþjónar í hreppnum og kemur það mörgum á óvart hve margt er að sjá og upplifa í Árneshreppi.

 

DEILA