Ísafjarðardjúp: Arnarlax vill hefja 10.000 tonna laxeldi næsta vor

Lögð hefur verið fram frummatsskýrsla Verkís um sjókvíaeldi Arnarlax fyrir framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári. Frummatsskýrslan fjallar um fyrirhugaðlaxeldi  og lýsir áhrifum þess  á umhverfi og samfélag. Skýrslan var kynnt á opnum fundi í Bolungavík í gær.

Hugrún Gunnarsdóttir og Þorsteinn Másson kynntu skýrsluna.

Metin eru áhrif eldiskvía, eldislax, flutnings búnaðar og eldisfisks, fóðrun og umferð á umhverfi. Skoðuð eru áhrif laxeldis á ástand sjávar og svifsamfélag, botndýralíf og kalkþörungar, nytjastofnar sjávar, náttúrulegir stofnar laxfiska, fuglar, spendýr,
ásýnd, samfélag, haf- og strandnýting auk samlegðaráhrifa.

Fyrirtækið stefnir að því að hefja rekstur eldisins í Ísafjarðardjúpi vorið 2021.

Áætlað er að eldiskvíar verði staðsettar á þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi, en það er á eldissvæði við Óshlíð og á tveimur eldissvæðum út af Snæfjallaströnd, við Drangsvík og við Eyjahlíð.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrslu og lagt fram athugasemdir. Þeim ber að skila inn eigi síðar en 26. júní 2020.

Matsferli ljúki fyrir jól

Næsta skref verður að Skipulagsstofnun fer yfir athugasemdirnar og gefur álit sitt á þeim. Arnarlax mun þá bregðast við og ganga frá endanlegri matsskýrslu og leggja hana fram. Skipulagsstofnun mun svo ljúka þessum þætti ferlisins með áliti sínu á matsskýrslunni.

Að því áliti fengnu getur Arnarlax sótt um leyfi fyrir laxeldinu.

Fram kom á kynningarfundi Arnarlax að vonast er til þess að unnt verði að sækja um starfs- og framkvæmdaleyfi fyrir laxeldið fyrir næstu jól og að þeim fengnum yrði fyrstu seiðin sett út í sjó vorið 2021. Áformað er að setja 1.780.000 seiði 90 – 300 grömm að stærð út í kvíar. Þau gætu verið komin í sláturstærð eftir 15 – 24 mánuði.

60 – 70 ársverk

Fram kemur í frummatsskýrslunni að eldinu fylgi 60 – 70 ársstörf og þeim til viðbótar komi afleidd störf. Notaðar verða 5 – 25 kvíar á þremur svæðum við Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð. Hver kví er 160 metrar að ummáli og verða um 150 þúsund laxar í hverri.

Um verður að ræða svokallað kynslóðaskipt eldi. Það þýðir að eldi verður á einni kynslóð innan saman sjókvíaeldissvæðis á hverjum tíma. Sjókvíaeldissvæði eru hvíld á milli
kynslóða til að hindra að sjúkdómar og sníkjudýr berist á milli kynslóða og umhverfi við og undir kvíum hreinsi sig af óæskilegum efnum.

 

DEILA