Hafró: 5% samdráttur í þorski

Hafnrannsóknarstofnun leggur til 6% lækkun á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 272.411 tonnum í 256.593 tonn fyrir fiskveiðiárið 2020/2021. Helsta ástæða lækkunar ráðgjafar er lækkun í stofnmælingum botnfiska auk þess sem nú eru vísitölur 1 til 14 ára þorsks notaðar í stofnmatið en áður var einungis notaðar vísitölur 1 til 10 ára þorsks.

Stofnunin segir að viðmiðunarstofn þorks hafi minnkað úr 1.365 þúsund tonn niður í 1.208 þúsund tonn sem er lækkun um 12%. Eins kom fram í kynningunni að stóra árganga vantaði í þorskstofninn og að veiðidánartala eldri þorsks hefði verið vanmetin. Nýliðun hefði hins vegar verið stöðug frá 1988.

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 45.389 tonn fiskveiðárið 2020/2021 sem er 9% hækkun frá fiskveiðiárinu 2019/2020. Ástæða hækkunarinnar eru bættar nýliðunarhorfur. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn ýsu stækki á næstu tveimur árum en eftir það er líklegast að hann standi í stað.

Langt er til að veiða 8.761 tonn af steinbít og er það 5% aukning frá yfirstandandi fiskveiðiári. Kvóti í sæbjúgum verður 2.203 tonn sem er nánast það sama og nú er.

Hörpudiskur 93 tonn

Hafrannsóknastofnun gefur nú út ráðgjöf um veiðar á hörpudiski í Breiðafirði í fyrsta skipti frá því að atvinnuveiðum var hætt fiskveiðiárið 2002/2003. Tilraunaveiðar hafa staðið yfir undanfarin 6 ár á nokkrum svæðum í firðinum og benda niðurstöður þeirra til að nýliðun sé mjög lítil á flestum svæðum og því leggur stofnunin einungis til aflamark á tveimur svæðum í Breiðafirði, samtals 93 tonn.

DEILA