Fasteignaverð: hæst verð á Ísafirði og lægst á Flateyri

Tunguhverfi Ísafirði.

Fasteignaverð fyrir sérbýli er hæst í nýrri byggðinni á Ísafirði. Fermetraverðið reyndist vera 202.359 kr. að meðaltali á tímabilinu 1. janúar 2019 til 4. júní 2020. Meðalaldur húsanna er 41 ár og er verðið reiknað út frá 8 sölum á tímabilinu.

Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.

Næsthæst er verðið í eldri byggð Ísafjarðar. Þar var fermetraverðið 172.368 kr. en meðalaldur húsanna var mun hærri eða 63 ár.  Þriðja hæsta meðalverðið reyndist vera í Hnífsdal eða 160.124 kr hver fermetri og meðalaldurinn er 53 ár.

Fjórða hæsta meðalverðið á hvern fermetra var á Bíldudal. Þar var það 149.677 kr. Næst kom Bolungavík með 149.169 kr. Lægst er verðið á Flateyri 69.359 kr sem er 34% af verðinu í nýrra hverfinu á Ísafirði. Næstlægst var verðið á Reykhólum og svo á Hólmavík.

Meðalverðið á Vestfjörðum 140 þús kr fermetrinn

  • Meðalkaupverð á Vestfjörðum á tímabilinu er 22.356.657 kr. Meðalfermetraverðið er 139.915 kr. Meðalstærðin er 159,8 m2        
  • Niðurstöðurnar eru byggðar á 99 kaupsamningum.

Meðalverðið á höfuðborgarsvæðinu 410 þúsund kr.

Meðalverðið á höfuðborgarsvæðinu fyrir sérbýli reynist vera 410 þúsund krónur á hvern fermetra. Hæst var það 502.975 kr. í Vesturbænum í Reykjavík og lægst í Breiðholtinu um 350 þúsund krónur. Meðalaldurinn í Vesturbænum á sérbýlunum var 32 ár en 40-50 ár á húsunum í Breiðholtinu.

DEILA