Daníel : vill áhættumat og burðarþolsmat fyrir Jökulfirði

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir í morgun erindi sjávarútvegsráðherra sem óskar umsagnar sveitarfélagsins um hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Jökulfjörðum. Umsagnarfrestur er til 9. júlí 2020.

Bæjarráðið vísaði erindinu til bæjarstjórnar, sem heldur fund á fimmtudaginn.

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs sagði í samtali við Bæjarins besta að hann teldi ekki tímabært að svo stöddu að banna laxeldi í Jökulfjörðum. Hann sagðist vilja fá burðarþolsmat og áhættumat fyrir svæðið áður en lengra væri haldið.  Daníel velti því upp hvort ekki væri óþarfi að banna sérstaklega einstök svæði á landinu eins og gert var 2004 eftir gildistöku nýrra ákvæða í lögum um fiskeldi sem gera skylt að gert verði áhættumat og burðarþolsmat á svæðum sem til athugunar eru. Hann sagðist ekki sjá betur en að þessi ákvæði gerði bannreglugerðina frá 2004 óþarfa, en samkvæmt henni er strandlengjan um landið að miklu leyti lokuð fyrir laxeldi í sjó, að undanskildum Vestfjörðum, Eyjafirði og sunnanverðum Austfjörðum.

DEILA