Annríki hjá lögreglunni á Ísafirði

Talsvert var um kvartanir vegna samkvæmishávaða í heimahúsum á Ísafirði um sl. helgi. Lögregla var kölluð til og lofuðu aðilar að stilla hávaða í hóf og taka tillit til nágranna.

Þá framkvæmdi lögreglan húsleit í heimahúsi í Bolungarvík sl. föstudag þar sem grunur hafði vaknað fíkniefnameðhöndlun þar.
Við húsleitina fannst ætlað kókaín, sterar og ýmsar óþekktar töflur sem lagt var hald á. Þetta var þó í litlum mæli. Tveir aðilar voru handteknir í kjölfarið og yfirheyrðir.
Fíkniefnaleitarhundurinn Tindur aðstoðaði lögreglumenn við leitina.

Á laugardaginn stöðvaði lögreglan för ökumanns sem var að koma akandi frá Reykjavík til Ísafjarðar. Grunur hafði vaknað um að sá væri með fíkniefni í fórum sínum. Við leitina í bílnum fannst töluvert magn fíkniefna, um 150 gr. af kannabisefnum og um 50 gr. af ætluðu amfetamíni. Efnismagnið, eitt og sér, bendir til þess að þessi efni hafi átt að fara í dreifingu á Vestfjörðum.

Þá var óskað aðstoðar lögreglu vegna manns sem var kominn, óboðinn, inn á heimili á Ísafirði aðfaranótt þriðjudagsins. Húsráðendur vöknuðu við að maðurinn var kominn inn í stofu. Lögreglan fjarlægði manninn út úr íbúðinni og var honum komið til síns heima.

Númer voru fjarlægð af átta bifreiðum í vikunni sem leið vegna vanrækslu á lögbundinni skoðunarskyldu og vangreiddum tryggingum. Átta ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.

DEILA