Vöktun kríu á Vestfjörðum

Náttúrustofa Vestfjarðar fyrirhugar að vakta kríuvarp á Vestfjörðum og verður með langtímavöktun í talningum en marktækar talningar hafa hingað til verið tiltölulega fáar. Allar ábendingar um kríu eru vel þegnar.

Krían (Sterna paradisaea) er komin á Vestfirði og fyrstu fréttir um að að hún hafi sést í ár var í Dýrafirði 8. maí, á Bíldudal 10. maí, á Pateksfirði 11. maí, á Ísafirði 13. maí og í Bolungarvík 16. maí.

Krían flýgur lengst allra fugla á milli varpstöðva og vertrarstöðva og er algengur varpfugl hér á landi.

Krían er þekkt fyrir að verja varpland sitt af hörku og aðrir fuglar njóta góðs af því að verpa í nágrenni hennar.
Stærstu vörpin hafa verið á annnesjum, einkum vestanlands og norðan en hún verpir á láglendum strandsvæðum og eyjum en einnig inn til landsins við ár og vötn eða við tjarnir í þéttbýli.

Sandsíli er aðalfæða kríunnar við sjávarsíðuna, en hornsíli inn til landsins. Önnur fæða er t.d. seyði hrognkelsa og marhnúts, skordýr, krabbadýr og burstaormar.

Kríuvarpi hefur hnignað víða á landinu frá og með 2005 þegar hrun varð í sandsílastofninum og varpárangur var lélegur flest árin eftir það í mörgum af stærstu kríubyggðum á Suður- og Vesturlandi.

Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2018 á 91 tegund fugla þá var krían ein af 41 fuglategund á válista en hún var ekki á fyrri válista Náttúrufræðistofnunar árið 2000.

DEILA