Vesturverk segir upp og lokar skrifstofunni

Vesturverk ehf á Ísafirði hefur sagt upp starfsfólki og verður skrifstofu fyrirtækisins á Ísafirði lokað.  Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmastjóri hættir 1. ágúst, en situr áfram í stjórn.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að í ljósi markaðsaðstæðna og fyrirsjáanlegrar óvissu hafi verið  samþykkt á hluthafafundi VesturVerks ehf. 30. apríl 2020  að fela stjórn félagsins að draga tímabundið úr starfsemi félagsins.

Áfram verður  unnið að rannsóknum vegna virkjunarkosta sem félagið vinnur að, þar með talið Hvalárvirkjun og skipulagsbreytingum.

Í fréttatilkynningunni segir að þótt um sársaukafullar aðgerðir sé að ræða „eru þær nauðsynlegar til þess að tryggja áframhaldandi rekstur VesturVerks ehf. og viðgang verkefna félagsins til framtíðar. Hvalárvirkjun ásamt virkjunarkostum sem VesturVerk hefur unnið að við innanvert Ísafjarðardjúp eru liður í því að skapa skilyrði fyrir nýtingu vatnsfalla við Djúpið og til lengri tíma litið, bæta afhendingaröryggi og afhendingargetu raforkukerfisins á Vestfjörðum sem er löngu tímabært.“

Jóhann Snorri Sigurbergsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, helsta eiganda Vesturverks ehf og hann sagði í samtali við Bæjarins besta að verið væri að draga úr kostnaði tímabundið. Aðstæður á markaði hafi breyst síðustu mánuði þannig að eftirspurn hefur minnkað eftir rafmagni og áform um uppbyggingu orkufrekum kostum eins og gagnaverum, kísliveri og jafnvel álveri sé ekki að ganga eftir. Þá er verð á rafmagni víða erlendis hagstæðara en á Íslandi sem einnig veldur minnkandi eftirspurn og því væri til nóg rafmagn í landinu um þesar mundir.

Jóhann lagði áherslu á að Hvalárvirkjun héldu áfram þótt hægt væri á því. „Hvalárvirkjun er gott verkefni“ sagði Jóhann.  Hann sagði að eitt af því sem leiddi til þess að hægja á ferðinni væri að Landnet væri ekki tilbúið með uppbyggingaráform sín á Vestfjörðum og það þyrfti að bíða eftir fyrirtækinu og vinna skipulags- og uppbyggingu Hvalárvirkjunar í samræmi við hraðann hjá Landsneti.

Jóhann Snorri Sigurbergsson var spurður um afstöðu hluthafanna og fjárfesta til Hvalárvirkjunar og hvort þeir væru að falla frá stuðningi við verkefnið m.a. vegna þrýstings frá Náttúrverndarsamtökum Íslands og Landvernd.

Jóhann sagði að vissulega hefðu fulltrúar þessara samtaka oft komið til þess að tala gegn virkjunaráformunum og að hlustað hefði verið á sjónarmið þeirra.  En það væri alveg skýrt að enginn bilbugur væri á fjárfestunum við stuðning sinn við Hvalárvirkjun.

Jóhann ítrekaði að það væri fyrst og fremst minnkandi eftirspurn og lækkandi raforkuverð sem gerði það að verkum að hægt væri á ferðinni og miðað væri við að vera tilbúnir til framkvæmda þegar það ástand hefur lagast á ný.

DEILA