Vesturbyggð: landbúnaðarsvæði breytt í iðnaðarsvæði innan friðlands

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að breyta skilagreindu landbúnaðarsvæði innan friðlands Vatnsfjarðar í iðnaðarsvæði.  Iðnaðarsvæðið er  undir starfsemi Eldisvarar ehf. á Seftjörn lóð 1 við Þverá á Barðaströnd. Fyrirtækið starfrækir fiskeldi á landssvæði sem er minna en 5 hektarar og nefnist Seftjörn. Friðland Vatnsfjarðar var friðlýst árið 1975 er um 190 ferkm að flatarmáli.

Áformað er að fara í endurskipulagningu og uppbyggingu á svæðinu en núverandi starfsleyfi veitir heimild til þess að vinna allt að 200 tonn í land- og kvíaeldi. Fiskeldi hefur verið starfrækt á svæðinu frá árinu 1984.

Eftir samþykki bæjarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar á fullunninni tillögu verður hún auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Þá hefur einnig verið lögð fram deiliskipulagstillaga að ofangreindu svæði. Stærð þess er 1,9 ha og nær yfir núverandi mannvirki og næsta umhverfi fiskeldisstöðvarinnar. Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti tillöguna og fer hún í auglýsingu samhliða breytingu á aðalskipulaginu.

 

DEILA