Vestfirðir: 90% aukning á laxeldi 2019

Fram kemur í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma að alls hafi verið slátrað 33.959 tonnum af eldisfiski á liðnu ári og jókst heildarframleiðslan um heil 94% á milli ára.

Þar vóg þyngst meira en tvöföldun á magni á laxi úr sjókvíaeldi sem fór úr 11.780 tonnum í 25.316 tonn, en strandeldi á laxi stendur nánast í stað. Athygli vekur að Austfirðir fara langt í að þrefalda sína ársframleiðslu og Vestfirðir auka um 90% á milli ára.

Þá varð 29% aukning í slátrun á bleikju, en hún er að langmestu leyti
alin í strandeldisstöðvum. Eldi á senegalflúru stendur í stað, en þorskeldi er nánast
endanlega að þurrkast út.

Langmest var slátrað af laxi á síðasta ári eða 26.957 tonn. Næst kom bleikja, en 6.322 tonnum var slátrað.  Af regnbogasilungi var slátrað 299 tonnum og 377 tonnum af senegalflúru. Einungis 3,8 tonnum af þorski var slátrað.

Alls voru 50 eldisstöðvar í rekstri á landinu, þar af voru um 15 á Vestfjörðum.

Nýjar klakstöðvar

Uppbygging nýrra klak- og seiðaeldisstöðva hefur verið ákveðinn flöskuháls í laxeldi á liðnum árum, að því er fram kemur í skýrslunni, en stórátak hefur víða átt sér stað á þeim vettvangi og ef fer sem horfir má reikna með að framleiðsla í laxeldi rjúfi 30.000 tonna múrinn árið 2020.

Sjókvíaeldi þrefaldast

Á þremur árum 2017 – 2019 þrefaldaðist framleiðslan í sjókvíaeldinu og fór það úr 9.701 tonnum í 25.316 tonn. Landeldið stóð hins vegar í stað á þessum tíma. Það var 1.564 tonn árið 2017 en 1.641 tonn á síðasta ári.

2019 farsælt ár

Síðasta ár fær óvenjugóða dóma hjá fisksjúkdómalækni og segir hann að árið 2019 hafi verið á heildina litið farsælt á flestum sviðum íslensks fiskeldis og framleiðsla til slátrunar umfram bjartsýnar væntingar. Ytri aðstæður voru hagstæðar, ekki síst er varðar
markaðsmál og náttúruöfl segir í skýrslunni. „Eitt versta fárviðri í áratugi fór óblíðum höndum um mest allt land aðra vikuna í desember, en bæði eldismenn og mannvirki voru vel viðbún þannig að hvergi hlaust tjón af.“