Þ-H leiðin: tvær kærur

Frá Þorskafirði. Mynd: Vegagerðin.

Tvær kærur bárust til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál um veitingu framkvæmdaleyfis til vegagerðar skv. Þ-H leið í Gufudalssveit.  Fyrst var lögð fram kæra frá Landvernd og skömmu áður en kærufrestur rann út var lögð fram kæra frá fjórum landeigendum að Gröf, tveimur eigendum að Hallsteinsnesi, Fuglaverndarfélagi Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Gunnlaugi Péturssyni.

Eigendur Grafar eru  Arndís Ögn Guðmundsdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir, Kolbrún Pálsdóttir allar í Reykjavík og Ósk Jóhanna Guðmundsdóttir, Reykhólum. Eigendur Hallsteinsness eru Brynja Þórdís Þorbergsdóttir, Hafnarfirði og Guðrún Ólöf Þorbergsdóttir, Reykjavík. Gunnlaugur Pétursson er búsettur í Reykjavík.

Þess er krafist í báðum kærunum að framkvæmdaleyfið fyrir nýja veginum verði fellt úr gildi. Auk þess krefst Landvernd þess að ákvörðun sveitarstjórnarinnar um að veita framkvæmdaleyfið verði felld úr gildi.

Landvernd gerir þá kröfu að framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan mál þetta er til meðferðar hjá nefndinni.  Í seinni kærunni er áskilinn réttur til þess að krefjast úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á síðari stigum málsins vegna framkvæmda sem þá verða hafnar eða yfirvofandi.

Ljóst er að úrskurðarnefndin þarf að taka fyrst fyrir kröfurnar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða og afgreiða þær áður en lengra verður haldið.

Varnaraðilar í málinu eru sveitarstjórn Reykhólahrepps og Vegagerðin. Að sögn Magnúsar Vals Jóhannssonar, framkvæmdastjóra hjá Vegagerðinni er verið að vinna að svari stofnunarinnar við báðum kærunum. Það er því ekki enn ljóst hvað varnaraðilar munu leggja áherslu á í sínum máli annað en að þeir munu væntanlega hafna kröfum kærenda og telja framkvæmdaleyfið löglegt og eins ákvörðun sveitarstjórnar.

Búast má við því að töluverðu púðri verði eytt í kröfuna um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða því það getur skipt gríðarlega miklu máli um framvindu verksins hvernig sú stöðvun verður ef á hana verður fallist.

Það er hægt að stöðva alla framkvæmdina meðan nefndin afgreiðir kærurnar og það getur tekið marga mánuði og jafnvel ár. Það væri líka hægt að stöðva ákveðna áfanga verksins og þá væri hægt að vinna að öðrum.  Þverun Þorskafjarðar er líklega sá áfangi sem helst mætti vinna meðan leiðavalið að öðru leyti yrði útkjáð. Þó er það ekki alveg einboðið því ekki kemur til þverunarinnar ef Reykhólaleiðin er farin.  Það kemur fram í kæru landeigenda og fleiri að Reykhólaleiðin sé betri en Þ-H leiðin og að sveitarstjórninni hefðu borið að velja þá leið. Því má búast við að kærendur myndu leggjast gegn þverun Þorskafjarðar sem biðleik.

DEILA