Þ-H leið: stutt í fyrstu útboð

Vegagerðin hefur skilað greinargerð sinni til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál varðandi kæru Landverndar og eigenda jarðanna Hallsteinsness og Grafar á framkvæmdaleyfi til Þ-H leiðar sem Reykhólahreppur hefur gefið út. Fyrst verður tekin fyrir krafa um bann við framkvæmdum til bráðabirgða þar til úrskurðarnefndin hefur lokið því að úrskurða um kærurnar. Óvíst er hvenær niðurstaða liggur fyrir um bráðabirgðakröfuna en búast má við því að umfjöllun nefndarinnar um aðalkröfuna taki marga mánuði, jafnvel heilt ár. Líklegt er þó talið, samkvæmt heimildum Bæjarins besta að innan nokkurra vikna falli úrskurður um bráðabirgðakröfuna. Hvað það varðar þá er litið til þess að nýi vegurinn er liðlega 20 km og skiptist í misjafnlega umdeilda kafla. Er það á heimildarmönnum Bæjarins besta að heyra að búist sé við því að úrskurðarnefndin muni með einhverjum  hætti fallast á bráðabirgðastöðvun framkvæmda.

Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs segir  að stutt sé í útboð á nýjum vegi 4 – 5 km löngum  í Gufufirði, sem tengi saman sveitabæi í firðinum og nýja þjóðveginn. Tengivegurinn mun nýtast fyrir almenna umferð um Vestfjarðaveginn meðan aðalvegurinn verður í byggingu. Þá er í undirbúningi að bjóða út þverun Þorskafjarðar og útboð fyrirhugað í júní-júlí. Framkvæmdatími yrði 2 ár.