Smávirkjanir: einn hagkvæmur kostur í Súðavíkurhreppi

Kort í skýrslunni af virkjunarkostunum fimm í Súðavíkurhreppi.

Einn kostur reyndist hagkvæmur af fimm sem skoðaðir voru í Súðavíkurhreppi. Það er Lambagilsá í Hestfirði sem er áætluð gefa 2,5 MW afl og framleiða 11,80 KWh á ári. Tveir kostir eru mögulega hagkvæmir, annar í Álftafirði og hinn í Mjóafirði.

Þetta kemur fram í skýrslu um smávirkjanir á Vestfjörðum sem Verkís hefur unnið að frumkvæði Vestfjarðastofu.

Allt landsvæði sveitarfélagsins var undir við leit að mögulegum virkjanakostum að undanskildum vatnasviðum á Glámu sem þegar eru til athugunar sem hluti af stærri virkjanahugmyndum. Metnir voru 5 virkjanakostir, í Dvergasteinsá og Svarfhólsdalsá í Álftafirði, Lambagilsá með veitu úr Straumbergsá í Hestfirði, Ögurá og Bessárdalsá í Mjófirði. Lambagilsá með veitu úr Straumbergsá reynist hagkvæmur kostur og Bessárdalsá og Svarfhólsdalsá er mögulega hagkvæm. Þess ber að geta að í Ögurá sem hér var tekin fyrir er gömul stífla og virkjun sem framleiddi rafmagn til eigin nota. Þessi greining tekur ekki til þess hvort hagkvæmt gæti reynst að endurgera þá virkjun. Rjúkandi í Skötufirði var skoðaður lítillega og er mögulega hagkvæmur kostur jafnvel þó að hluti vatnasviðs hans yrði nýttur sem hluti af virkjanaáformum sem þegar eru í athugun.

Þörf á smávirkjanasjóð á Vestfjörðum

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að markmið verkefnisins hafi verið  að meta þörf á stofnun Smávirkjanasjóðs á Vestfjörðum með því að greina á grófan hátt hagkvæmni allt að 30-40 virkjanakosta í landshlutanum. Nokkrir þættir voru undanskildir sem þarf að skoða til að meta betur hagkvæmni og hvort virkjanakostir séu raunhæfir m.t.t. umhverfisáhrifa og tenginga.

„Þetta fyrsta skref er þó skynsamleg nálgun til að átta sig á umfangi á álitlegum kostum sem er forsenda þess að setja á fót Smávirkjanasjóð. Þessi sjóður kæmi til dæmis að góðu gagni til þess að fullklára forathugun valkostanna til frekari staðfestingar á hvort skynsamlegt sé að þróa þá enn frekar. Í heild voru skoðaðir 68 mögulegir virkjanakostir með heildar uppsett afl upp á 79 MW. 18 kostir með u.þ.b. 43 MW uppsett afl teljast hagkvæmir samkvæmt flokkun höfunda og um 15 til viðbótar með um 17 MW uppsett afl mögulega hagkvæmir.“

DEILA