Skipulagsstofnun: boðið til samráðs um mótun strandsvæðisskipulags

Í gær opnaði Skipulagsstofnun  samráðsvefsjá í tengslum við gerð strandsvæðisskipulags á  Vestfjörðum og verður hún opin næstu fjórar vikur til 4. júní. Vefsjánni er ætlað að gefa íbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu tækifæri til að taka þátt í mótun strandsvæðisskipulags fyrir svæðin.

Í samráðsvefsjánni gefst almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að merkja inn á kort hvernig svæðin eru notuð til útivistar og annarrar hagnýtingar svo sem til dúntekju, siglinga og kajakróðra auk staða sem þeir vilja vekja athygli á og tengjast núverandi eða mögulegri framtíðarnýtingu á svæðunum. Jafnframt er hægt að koma á framfæri sjónarmiðum um stöðu svæðisins, styrkleika þess og áskoranir.

Ný leið til samráðs

Vefsjár af þessu tagi eru ný leið til að hafa samráð í skipulagsgerð hér á landi. Vefsjáin er aðgengileg á hafskipulag.is og er hún bæði á íslensku og ensku.

Gerð strandsvæðisskipulagsins er á ábyrgð svæðisráðs svæðisins sem skipuð eru af umhverfis-ráðherra en Skipulagsstofnun annast gerð skipulagsins í umboði þess.

Hægt verður að koma á framfæri ábendingum um nálgun og efnistök í skipulagsvinnunni með tölvupósti á hafskipulag@skipulag.is eða í athugasemdagátt á hafskipulag.is. Frestur til að koma ábendingum á framfæri er til 1. júní 2020.

Kynningarfundir

Fyrirhuguð vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum verður kynnt á veffundum og streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar á eftirfarandi tímum:

  • 12. maí kl. 15:00, kynning á lýsingu fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum.

Nánari upplýsingar um fundina eru á hafskipulag.is.

Til stóð að halda samráðsfundi samhliða kynningu á lýsingu en vegna samkomutakmarkana hefur þeim verið frestað. Samráðsfundirnir verða haldnir haustið 2020 og verða þeir auglýstir þegar nær dregur.