samband sveitarfélaga: Dökkar horfur og krafa um viðræður við ríkið

Á fundi stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga  föstudaginn 24. apríl sl. var fjallað um áhrif Covid-19 á sveitarfélögin og þá sérstaklega hugsanlegt tekjufall þeirra. Á fundinum samþykkti stjórn bókun þar sem fram kemur að ríkið veit sveitarfélögunum fjárhagslegan stuðning við ýmsar nauðsynlegar aðgerðir.

„Ljóst er að mikilvægi nærþjónustunnar sem sveitarfélögin veita hefur sjaldan verið meiri en nú. Með vísan til þeirrar vinnu sem sambandið hefur lagt í greiningu á stöðunni og til minnisblaðs Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til fjármála- og efnahagsráðherra, telur sambandið mikilvægt að ríkissjóður komi að málum með fjölbreyttum almennum aðgerðum og með beinum fjárhagslegum stuðningi til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á landinu öllu. Við þessar aðstæður er mikilvægt að sveitarfélögin hafi nægan fjárhagslegan styrk og svigrúm til þess að halda uppi þjónustu við íbúa, ráðast í nauðsynlega fjárfestingu og uppbyggingu og tryggja framlög til skólahalds, velferðarþjónustu, íþrótta- og menningarstarfsemi svo fátt eitt sé nefnt. Gangi þau áhrif eftir sem lýst hefur verið verður rekstur sveitarfélaganna þungur um langan tíma og verður ekki leystur með lántökum og niðurskurði í þjónustu sveitarfélaganna.“

Haldinn var í gær auka stjórnarfundar með formönnum landshlutasamtaka og borgarstjóra til að fjalla nánar um stöðu efnahagsmála í ljósi þess ástands sem nú er í samfélaginu og til fá upplýsingar um stöðu mála í hverjum landshluta.

Þar var áréttuð  bókun stjórnar sambandsins um nauðsyn þess að ríkisvaldið komi að málum með beinum fjárhagslegum stuðningi við sveitarfélögin og almennum og sérstökum aðgerðum að mæta þeirri stöðu sem komin er upp. Þar segir að aðstæður margra sveitarfélaga eru nú þegar með þeim hætti að erfitt getur verið að halda uppi nauðsynlegri nærþjónustu við íbúa.

Mat hagdeildar Sambandsins er að lánsfjárþörf sevitarfélaganna í ár og á næsta ári mun aukast um 53 – 65 milljárða króna vegna lækkunar tekna sveitarfélaganna og aukinna útgjalda.