Reykhólar: krefst launa út kjörtímabilið

Skrifstofuhúsnæði Reykhólahrepps. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tryggvi Harðarson, fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps gerir kröfu um að fá greidd laun út kjörtímabilið sem er til júní 2022. Tryggva var sagt upp í apríl. Hann fær greidd laun uppsagnarfrestinn sem er þrír mánuðir samkvæmt ráðningarsamningi hans. Það er lögmannsstofan Lex sem rekur erindið.

Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi sínum í gær og að sögn Ingibjargar B. Erlingsdóttur, sveitarstjóra fellst sveitarstjórn ekki á kröfuna.

Ætla má að krafan sé samtals um 30 milljónir króna að meðtölum launatengdum gjöldum fyrir framangreint tímabil.

Einn sveitarstjórnarmaður Ingimar Ingimarsson, fyrrverandi oddviti taldi á fundinum í apríl uppsögnina ólögmæta  þar sem bæri að rökstyðja hana samkvæmt stjórnsýslulögum og veita andmælarétt. Meirihluti sveitarstjórnar benti þá á að um pólitíska ráðningu hefði verið að ræða og uppsögnin væri það líka og því þyrfti ekki að rökstyðja ákvörðunina frekar en að vísa til þess að um ólíka sýn aðila á málefni sveitarfélagsins væri að ræða. Þá ætti andamælaréttur ekki við því ekki væri ásökun um brot í starfi.

DEILA