Reykhólar: fyrrverandi oddviti átalinn á sveitarstjórnarfundi

Ingimar Ingimarsson, fyrrverandi oddviti.

Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps á þriðjudaginn var sveitarstjóra veitt heimild til þess  að framlengja yfirdráttarheimild allt að 60 milljónum króna þar til lán liggja fyrir. Beiðnin um heimildina er dagsett þann  17.12.2019  og hafði ekki verið lögð fyrir sveitarstjórn áður en hún var lögð fyrir viðskiptabanka sveitarfélagsins.

Árný Huld Haraldsdóttir, oddviti setti út á ákvörðunina og í bókun frá henni kemur fram að ekki var aflað heimildar sveitarstjórnar fyrirfram og að tveir sveitarstjórnarmenn vissu ekki af málinu fyrr en nokkrum mánuðum seinna. Fer ekki á milli mála að gagnrýni oddvitans núverandi beinist að fyrrverandi oddvita Ingimar Ingimarssyni og fyrrverandi sveitarstjóra Tryggva Harðarsyni.

Bókun Árnýjar:

„Í 7. kafla um fjármál sveitarfélaga, 58. grein segir að einvörðungu sveitarstjórn geti tekið
ákvarðanir um málefni er varða verulega fjármál sveitarfélagsins. Til slíkra málefna teljast
m.a. ákvarðanir um lán, ábyrgðir og aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags. Ég
vil því setja út á vinnubrögð sem höfð voru við samþykki við yfirdráttarheimildar hjá
Reykhólahreppi í desember 2019. Ákvörðun um að taka yfirdrátt fyrir hönd
Reykhólahrepps var ekki tekin á sveitarstjórnarfundi og ekki kynnt fyrir öllum sem sitja í
sveitarstjórn. Tveir sveitarstjórnarmenn voru ekki á neinn hátt upplýstir um yfirdráttinn og
komust að því að yfirdrátturinn hefði verið tekinn nokkrum mánuðum seinna.“

Fram kemur í skýringum Ingimars Ingimarssonar á fundinum að yfirdrátturinn var fenginn til þess að fjármagna kostnað við íbúðabyggingar sem Reykhólahreppur stóð straum af þar til húsnæðisfélagið sem formlega er framkvæmdaaðili fengi lánafyrirgreiðslu. Ingimar segir að meirihluti sveitarstjórnarfulltrúa hafi skrifað undir bréfið til bankans og sé því löglegt en viðurkennir að farist hafi fyrir að kynna bréfið  fyrir sveitarstjórn.

Bókun Ingimars:

„Meirihluti sveitarstjórnar 4 af 5 skrifa undir heimild til þess að fenginn verði yfirdráttur til
þess að brúa bilið uns nýbyggðar íbúðir færu í sjálfseignastofnun. Því er skriflegt
samþykki meirihluta sveitarstjórnar fullkomlega gilt sem ákvörðun sveitarstjórnar. Það
sama á við um seinna bréfið, þar skrifar undir meirihluti 3/5 sveitarstjórnar og er það því
ákvörðun sveitarstjórnar. Farist hefur fyrir hjá oddvita að kynna þetta á
sveitarstjórnarfundi og er það miður. Það er þó til málsbóta að yfirdrátturinn er
tímabundinn þangað til Reykhólar Hses greiðir sveitarsjóði. En á þessum tíma þegar
yfirdrátturinn var tekinn var ekki möguleiki á fundi.
Það var ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar að fara í framkvæmdir vegna húsbygginga
fyrir eigið fé, þar til húsnæðisfélag væri stofnað. Sú töf sem varð á stofnun Reykhóla
Hses, lagning ljósleiðarans og minni tekna sveitarsjóðs en áætlanir gerðu ráð fyrir urðu til
þess að lausafé sveitarfélagsins dugði ekki til. Þá var tekin ákvörðun um að brúa bilið
með yfirdrætti þar til greiðslur bærust frá Reykhólar Hses. Þetta þótti hagstæðara en að
taka önnur lán, vegna lántöku- og uppgreiðslu kostnaðar. Þessi ákvörðun var tekin af
meirihluta sveitarstjórnar og undirrituð.
Vegna tafa á greiðslum Reykhóla Hses, kostnaðar við ljósleiðara og minni tekna
sveitarstjóðs en áætlanir gerðu ráð fyrir var ákveðið að framlengja yfirdráttinn og hafa 60
milljón króna þak á honum. Þær 60 milljónir hafa aldrei verið fullnýttar. Það hefur því
aldrei þurft að borga vexti af 60 milljónum á yfirdráttarlánum. Að baki þessum
ákvörðunum liggur samþykki með undirritun meirihluta sveitarstjórnar bæði 15. nóv. og
17.des. Þá sendi sveitarstjóri einnig tölvupóst um málið 15. nóvember 2019 þar sem
hann minntist á nauðsyn þess að skrifa undir skilmála yfirdráttsins.
Undirritaður biðst afsökunar á því að hafa ekki haldið fund sérstaklega um þetta málefni.
En það var á ábyrgð hans sem oddvita að gera slíkt. Undirritaður taldi þó að þar sem
meirihluti sveitarstjórnar undirritaði skjölin væri fram kominn vilji meirihluta sveitarstjórnar.“

DEILA