Raggagarður: Barna og fjölskylduhátíð frestað til 2021

Fjölskylduhátíðinni sem verða átti í Raggagarði þann 8. ágúst 2020 hefur verið frestað til 2021.  Áhugamannafélagið Raggagarður ætlaði að halda upp á 15 ára afmæli garðsins og verklok í garðinum.

Vegna ástandsins með Covid 19 taldi stjórn garðsins það betri kost að bíða með barna og fjölskylduhátíðina fram til næsta sumars.  Hátíðin átti að vera með veglegra sniði þar sem halda átti upp á það að uppbyggingu garðsins sé lokið.

Einhver lítils háttar seinkun verður á því að bílastæði garðsins verður malbikað í sumar.

Telur stjórn garðsins það vera mjög erfitt að skipuleggja fjöldasamkomu í garðinum með þeim takmörkunum sem munu vera í gildi í sumar.  Þá er bæði átt við fjöldi gesta og fjarlægðarmörk og fleira.  Einnig hefur verið erfitt að fá samstarfsaðila eftir að veiran kom upp segir í tilkynningu frá Raggagarði.

„Við höfum fulla trú á að þetta verði allt yfirstaðið að ári og getum því næsta sumar haldið einhverskonar uppskeruhátíð og verklok með glæsilegum hætti. Það verður auglýst síðar.“

Raggagarður opnar ekki í ár fyrr en 1 júní þegar salernið opnar.  Það þarf að fara eftir sóttvarnarreglum meðal annars með þrifum og sótthreinsun tvisvar á dag á salerni.  Félagið er nú að vinna í því hvernig það verður leyst í samstarfi við Súðavíkurhrepp.  Garðurinn hefur hingað til verið nánast sjálfbær.  Enginn starfsmaður hefur verið í starfi hjá garðinum þessi 15 ár.  Stjórn garðsins hefur séð um þrif og rusl reglulega á vorin og byrjun sumars og að hausti. Síðan hefur fengist aðstoð frá Súðavíkurhrepp  yfir hásumarið ef enginn stjórnarmaður er á svæðinu.

„Það sem skiptir megin máli í sumar er að gestir geti þvegið hendur með sápu eða spritta áður en farið er í leiktækin og á eftir.  Svo þurfa gestir að gæta að tveggja metra reglunni í allt sumar í garðinum eins og annars staðar.“