Örugg raforka á Vestfjörðum – hvað þarf til ? Partur II

Mig langar til að bæta aðeins við í umræðuna sem Tryggvi formaður Landverndar var með hér á vef www.bb.is í morgun. Eitt og annað sem skiptir máli þegar kemur að umræðunni um örugga raforku á Vestfjörðum, einkum þegar rætt er um jarðstrengi.

Það er rétt sem Tryggvi bendir á að það eru tæknilegar takmarkanir á því hversu langa jarðstrengi er hægt að leggja. Það sem m.a. hefur áhrif á það eru kerfisaðstæður á hverjum stað. Við hjá Landsneti höfum bent á þessa staðreynd lengi og nú nýverið var birt skýrsla, unnin fyrir ráðuneyti Umhverfis- og auðlindamála og Atvinnuvega og nýsköpunar, þar sem tekið er í stórum dráttum undir niðurstöður úr greiningum Landsnets á möguleikum til lagninga jarðstrengja í meginflutningskerfinu.

Skýrsla sú, er Tryggvi nefnir, METSCO-skýrslan svokallaða, er hins vegar því marki brennd að hún tekur á engan hátt á þessum tæknilegu takmörkunum, þ.e. ekki liggur til grundvallar nein kerfisgreining til þess að greina mögulegt umfang jarðstrengslagna í flutningskerfinu á Vestfjörðum. Skýrslan er í raun ekki annað en æfing í útreikningi og samanburði á áreiðanleika flutningskerfisins eins og það er nú og eins og það væri ef öllum línum flutningskerfisins frá Geiradal og vesturúr yrði skipt út fyrir jarðstrengi. Það er algerlega óraunhæft og allt tal um tíföldun á afhendingaröryggi gersamlega gagnslaust. Yfir þetta var allt saman vandlega farið þegar fyrrnefnd skýrsla kom út í ársbyrjun 2018.

Á Vestfjörðum er veikasti hluti flutningskerfisins og svigrúm til jarðstrengslagna afar takmarkað. Að auki eru aðstæður þar þess eðlis að þær geta kallað á notkun strengja við ákveðnar aðstæður, s.s. í gegnum jarðgöng eða þverun fjarða. Það er ljóst að slíkar strenglagnir dragast af heildarkvótanum.

Við tökum undir með Tryggva að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þarfnast úrbóta. Uppbygging nýrrar orkuvinnslu og/eða efling varaafls eru meðal leiða til þess. Öll umfjöllun um bætt afhendingaröryggi og leiðir til þess þarf að byggja á raunhæfum gögnum, t.a.m. skýrslu samstarfshópsins sem Tryggvi vísar til. En því miður er fyrrnefnd skýrsla METSCO ekki í þeim flokki.

 

Magni Þór Pálsson
Verkefnastjóri rannsókna, Þróunar- og tæknisviði Landsnets

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!