Orkubú: virkjun stórbætir raforkuöryggið

Í ársskýrslu Orkubús Vestfjarða fyrir 2019 kemur fram að heildarorkuöflun var 266 GWst, þar af var orkuöflun vegna raforkusölu 163 GWst en 103 GWst voru vegna hitaveitusölu.

Eigin framleiðsla Orkubúsins var 90 GWst á síðasta ári og minnkaði því um 5 GWst. Framleiðslan er svipuð og hún var 2016 og er um 5% yfir meðaltali síðustu 10 ára. Eigin framleiðsla Orkubúsins var því aðeins fyrir þriðjungi af orkuöfluninni.

Bændavirkjanir gáfu 20 GWst til viðbótar við framleiðslu Orkubúsins og samanlögð framleiðsla OV og bændavirkjana var liðlega 41% af þörfinni.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri fjallar um þetta í formála sínum að ársskýrslunni og bendir hann á að Vestfirðir eru eingöngu tengdir landskerfinu með einni línu, Vesturlínu, en á móti kemur að mikið varafl er til reiðu með mjög stuttum viðbragðstíma. Elías rekur síðan hver áhrifin af nýrri virkjun yrði á raforkuöryggið á Vestfjörðum.

Virkjun bætir öryggið

„Mikilvægi varaaflsins á Vestfjörðum hefur komið skýrt í ljós á undanförnum árum, en uppsett afl í varaafli er nánast 100%. Bilanir í dreifikerfinu geta samt komið í veg fyrir að allir notendur hafi aðgang að varaafli þegar þörf er á. Stöðugt er unnið að umbótum í dreifikerfinu til að draga úr straumleysistilfellum og umfangi þeirra. Það er ljóst að öflug virkjun eða virkjanir innan veitusvæðis Orkubús Vestfjarða geta stórbætt raforkuöryggið og minnkað þörfina fyrir keyrslu varaafls. Aukin orkuframleiðsla hefur þannig bein áhrif á afhendingaröryggi fyrir nýja starfsemi sem krefst forgangsorku innan Vestfjarða. Það er mikið hagsmunamál fyrir Orkubú Vestfjarða, sem dreifiveitu, burtséð frá því hver framleiðandi orkunnar er. Ekki má þó gleyma að hringtengingar innan flutningskerfisins á Vestfjörðum eru einnig afar mikilvægar fyrir afhendingaröryggið. Þær duga þó ekki einar og sér ef ekki er aðgengi að orku til að flytja.“

Góður árangur af jarðhitaleit í Súgandafirði

Byrjað er að nýta nýja borholu að Laugum í Súgandafirði inn á veitukerfið. Afkastageta holunnar til lengri tíma litið er ekki orðin ljós, en fyrstu dælingar lofa góðu um framhaldið segir í formála Orkubússtjóra.  „Mikilvægt er að fá sem besta yfirsýn á jarðhitakerfið, enda getur það komið að gagni við mat á jarðhitakerfum í grennd, t.d. í Skutulsfirði.“

Styrking veitukerfisins – aukið afhendingaröryggi

Elías Jónatansson fjallar síðan um bilanir vegna veðurs sem urðu í vetur.  Hann segir að  alvarlegustu bilanirnar hafi mátt rekja til snjóþyngsla og seltumyndunar í aðveitustöðvum og spennuvirkjum bæði hjá Orkubúi Vestfjarða og Landsneti. „Orkubúið hefur brugðist við þessu í framkvæmdaáætlun ársins 2020 og verður m.a. farið í miklar endurbætur í aðveitustöð á Patreksfirði þar sem háspennurofar verða endurnýjaðir ásamt því að þar verður settur nýr 66 kV aflspennir. Á Keldeyri fyrir botni Tálknafjarðar verður gömlum aflspenni skipt út ásamt því að háspennurofar verða endurnýjaðir. Í aðveitustöð í Breiðadal verður skipt um aflspenni og skilið á milli dreifikerfis og flutningskerfis.“

DEILA