Ólík örlög – Óðinn og María Júlía

Um þessar mundir eru sjötíu ár síðan Björgunarskipið María Júlía kom til landsins og sextíu ár síðan Varðskipið Óðinn kom.

Varðskipið Óðinn sigldi út úr Reykja­vík­ur­höfn í fyrsta skipti í meira en ára­tug í gær þegar prufað var að ræsa vél­ar þess að nýju. Sjálf­boðaliðar hafa lagt mikla vinnu á sig að und­an­förnu til að koma skip­inu í gang að nýju.

Varðskipið Óðinn er hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík og kom til safnsins árið 2008.

Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öld. Öflugasta vopn skipsins var 57 mm fallbyssa, staðsett á palli fyrir framan brúna. Þekktasta og árangursríkasta vopnið í þorskastríðunum voru þó togvíraklippurnar, sem sjá má á afturdekki skipsins. Óðinn reyndist sérlega vel sem björgunarskip.

Hollvinasamtök Óðins voru stofnuð 26. október 2006 í Sjóminjasafninu í Reykjavík. Björgum Óðni, sögunnar vegna eru einkunnarorð þessara samtaka.

María Júlía er varðskip og björgunarskip sem Landhelgisgæslan notaði frá 1950 til 1969. Skipið var smíðað úr eik í Frederikssund í Danmörku og var heildarkostnaður 1,5 milljónir króna en um 300.000 af þeirri upphæð voru framlög frá slysavarnardeildum á Vestfjörðum.

Saga Maríu Júlíu er ekki síður glæsileg en saga Óðins. María Júlía tók þátt í stríði um landhelgina og talið er að áhafnir skipsins hafi bjargað um tvö þúsund manns.

Í skipinu var sérútbúin rannsóknarstofa fyrir fiskifræðinga og fyrir sjómælingar. Skipið var því fyrsti vísir að hafrannsóknarskipi á Íslandi.

Á meðan Óðinn siglir um sundin blá er María Júlía vinafá bundin við bryggju á Ísafirði í heldur dapurlegu ástandi.

Óskandi væri að María Júlía eignaðist hollvinasamtök sem gætu bjargað skipinu sögunnar vegna.

DEILA