Ökumenn hvattir til að virða hámarkshraða.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að í síðustu viku og fram til gærdagsins hafa 27 ökumenn verið kærðir í umdæminu fyrir of hraðan akstur.

Þessir ökumenn voru stöðvaðir í Skutulsfirði, Strandasýslu og í Vesturbyggð.
Sá sem hraðast ók var stöðvaður á 142 km hraða í Strandasýslu.

Einn af þeim ökumönnum sem stöðvaður var vegna hraðaksturs í Skutulsfirði var ekki með öryggisbelti spennt og hljóðaði samanlögð sekt fyrir það brot og hraðakstur upp á 40.000 kr.

Einn ökumaður var sviptur ökurétti til bráðabirgða í kjölfar brotisins, en hann ók á tvöföldum hámarkshraða í Krók á Ísafirði.
Annar ökumaður, sem stöðvaður var fyrir að aka á 131 km hraða í Strandasýslu, reyndist sviptur ökuréttindum og fékk því ekki að halda akstrinum áfram og farþegi þurfti að taka við.

Skráningarnúmer voru tekin af þremur bifreiðum þar sem eigendur höfðu vanrækt að greiða lögboðnar tryggingar af þeim.

Mikilvægt er að að ökumenn taki tillit til þess að margir ungir vegfarendur, gangandi eða hjólandi, eru komnir á kreik. Enginn vill vera valdur að umferðarslysi.

DEILA