Oddi hf. á Patreksfirði hefur vinnslu á vestfirskum laxi

Skjöldur Pálmason með laxaflökin. Myndir:aðsendar.

Fiskvinnslan Oddi hf. á Patreksfirði hefur ákveðið að hefja vinnslu á laxi sem framleiddur er í nærumhverfi félagsins á Vestfjörðum af Arnarlaxi og Arctic fish.

Með vinnslunni mun Oddi hf. nýta sér þekkingu starfsmanna sem hafa yfir hálfrar aldar reynslu við vinnslu og sölu sjávarafurða.

Oddi hefur góða reynslu af samstarfi við íslenska hátæknifyrirtækið Marel varðandi fullvinnslu sjávarafurða. Marel er í fremstu röð í heiminum varðandi tækjabúnað fyrir laxfiska og Oddi hefur fjárfest fullkomnri vinnslulínu frá fyrirtækinu sem nú ver verið að stilla og hefja prófanir fyrir fullunnar laxaafurðir þar sem lögð er áhersla á bestu mögulegu nýtingu á hráefninu. Með því að nýta nálægðina við uppeldisstöðvar laxins eru hámarksgæði hráefnisins tryggð fyrir erlenda markaði. Stefnt er að því að vinna um 2.500-3.000 tonn af laxi fyrst um sinn með stækkunarmöguleika í huga. Verkefnið mun skapa um 16-18 heilsársstörf.

,,Þetta er gríðarlega spennandi verkefni en á sama tíma mjög krefjandi þar sem mjög hörð samkeppni er um öflun hágæða laxahráefni eins og Arnarlax og Arctic Fish framleiða. Það er mat okkar í Odda að með tilkomu laxeldisins hafi skapast mörg tækifæri og nú sé rétti tíminn til að hefja vinnslu, þegar slátrun er nánast óslitin alla daga ársins. Stöðugleiki í framboði skiptir öllu fyrir sölumöguleika á ferskum flökum daglega inn á erlenda markaði. Með samningnum er gjaldeyrisöflun þjóðarinnar aukin, sem er ómetanlegt á þessum tímum“ segir Skjöldur Pálmason framkvæmdastjóri Odda hf.

„Þetta er mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum. Við fögnum því að vinna með reynslumiklu fyrirtæki á borð við Odda hf sem framleitt hefur gæðaafurðir í áratugi“ segir Björn Hembre forstjóri Arnarlax.

Stein Ove Tveiten framkvæmdastjóri segir„að við hjá Arctic Fish höfum verð mjög jákvæðir fyrir samvinnu og uppbyggingu innviða í okkar nærsamfélagi bæði þeim sem tengjast fiskeldinu beinnt sem og óbeint. Hér er um að ræða samstarf umhverfisvænnar matvælaframleiðslu sem hefst með klaki hrogna og áframeldi lax í nærumhverfi Odda hf. sem fullvinnur hágæða afurðir frá Vestfjörðum.“

 

 

DEILA