MÍ og covid19: gengið vel með bóknámið

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði segir að vel hafi gengið  að halda úti kennslu í bóknámi þar sem kennarar MÍ eru vanir því að sinna fjarnemendum sem eru nú orðnir fleiri en staðnemar. Jón reynir segir að Menntaskólinn á Ísafirði hafi verið einn af örfáum framhaldsskólum sem hófu breytingar á kennsluháttum og námsmati fyrir um áratug. „Lokapróf heyra nú sögunn til og nokkur ár eru síðan þeim var hætt. Námsmatið byggir á mati á verkefnum nemenda og hlutaprófum sem er dreift jafnt um önnina. Kennarar nota námsvefinn Moodle og eftir lokun skólans hafir margir verið með beina kennslu á Teams fjarskiptaforritinu sem reynst hefur vel og nemendur hafa verið duglegir að mæta.“

Lögð hefur verið áhersla á að náms- og starfsráðgjafi og kennarar séu í sambandi við nemendur sem eru í brotthvarfshættu en tölur um brotthvarf (hætta í skóla) og brottfall (fall í einstökum áföngum) verða teknar saman í byrjun júní að sögn Jóns Reynis. Þá er  ekki ljóst hvernig útskrift verður háttað en unnið er að því í samráði við útskriftarnemendur.

Á mánudaginn tóku gildi rýmkaðar reglur um samkomur og mega 20 manns koma saman.  Verknámsnemendur mega nú koma í skólann og sett hefur verið ný stundatafla þar sem verknámsnemendur ganga fyrir.

Jón Reynir Sigurvinsson segir að  skipulag starfseminnar í skólanum snúist um að virða 20 manna samkomubann, 2 m fjarlægðarreglu og öflugar sóttvarnir. Lögð sé áhersla á:

  • Mikilvægt að tryggja með öllum ráðum að ekki komi aftur upp smit​
  • Allir með minnstu flensueinkenni séu heima og fari í sýnatöku​
  • Húsvörður er í skólanum, starsfólká skrifstofu hefur val um að mæta í skólann/vinna heima ​
  • Kennarar, aðrir en verknámskennarar, vinna áfram heima.

Í næstu viku er vonast til þess að reglurnar verði samræmdar því sem gildir annars staðar á landinu. Þá munu bóknámsnemendur í einstökum áföngum geta komið í skólann. Kennarar geta þá í einhverjum tilvikum mætt í skólann en það verður háð reglum um 50 manna hámarksfjölda.