Mast: vill umsögn um 5 ára gamla umsókn um sjókvíaeldi

Matvælastofnun hefur sent erindi til Ísafjarðarbæjar með ósk um umsögn sveitarfélagsins um umsókn Háafells ehf. fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Notaður verða regnbogasilungur sem fjölgar sér ekki í íslenskri náttúru.

Fram kemur í umsókn Háfells að hverju sinni verði tveir árgangar að jafnaði í eldi á tveimur
árgangasvæðum og það þriðja hvílt. Á hverju árgangasvæði verði lífmassi mestur 3.500
tonn í lok annars árs, en á þeim tíma verði um 500 tonn í eldi á öðru árgangasvæði,
samtals rúmlega 4.000 tonn, en þriðja svæðið þá í hvíld. Magnið geti þó orðið meira, t.d.
ef slátrun verði ójöfn yfir árið. Fiski verði slátrað við sjókvíar um borð í sérstökum
sláturbát eða hann fluttur lifandi með brunnbát til slátrunar í Súðavík. Þegar starfsemin
verði í fullum rekstri sé gert ráð fyrir að slátrað verði flesta virka daga ársins eða að
jafnaði um 135 tonn á viku.

Matsskýrsla Háafells er frá febrúar 2015 og álit Skipulagsstofnunar er frá 1. apríl 2015.

Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja  skilyrði um  eldisbúnað og um vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar.

Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis HG í innanverðu
Ísafjarðardjúpi felist í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta
laxfiskastofna á svæðinu og að regnbogasilungur sem sleppur úr eldi í miklum mæli kunni
að hafa neikvæð áhrif á orðspor viðkomandi áa ef hann veiðist þar í umtalsverðu magni.

Athyglisvert er að álit Skipulagsstofnunar er að þessu leyti er ekki byggt á rannsóknum á svæðinu sem sótt er um né á athugunum annars staðar innanlands heldur er einvörðungu byggt á  norskum rannsóknum við aðstæður þar og upplýsingum um strok kvíafisks í Noregi. Af þessu er svo dregin ályktunin :  „Að mati stofnunarinnar geta áhrif strokufisks úr eldi HG orðið óveruleg til nokkuð neikvæð á náttúrulega stofna laxfiska í ám við innanvert Ísafjarðardjúp.“

Þá er atriði sem máli skiptir hver laxveiðin er í Langadalsá og Hvannadalsá þar sem það ræður fjarlægð kvía frá árósum og þarf fjarlægðin ýmist að vera 5 km eða 15 km eftir því hvort árleg veiði er minni eða meiri en 500 laxar. Telur Háafell að veiðin sé undir þeim mörkum og svo sé ekki hætta á blöndun stofna og af þeim sökum séu 5 km mörkin sem við kunna að eiga.

Skipulags- og mannvirkjanefnd fól skipulagsfulltrúa að móta umsögn Ísafjarðarbæjar og leggja fyrir bæjarstjórn.

 

DEILA