Lýðskólinn Flateyri: tuttugu og sex sóttu um starf

Lýðskólinn á Flateyri. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Umsóknarfestur um nýtt starf við Lýðskólann á Flateyri rann út þann 15. maí. Alls sóttu 26 manns um stöðuna. Í auglýsingu kom fram að starfið fæli í sér þróun nýrrar alþjóðabrautar skólans og þátttöku í stjórnun og skipulagningu daglegs skólastarfs í samvinnu við aðra starfsmenn skólans, kennslu einstakra námskeiða, aðstoð við nemendur auk þess að bera stóla, raða í uppþvottavél og semja námsskrá.

Krafa er gerð um að starfsmaður búi á Flateyri.

„Þarna er fjöldinn allur af öflugu og góðu fólki sem sækir um“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri.

„Á meðal umsækjenda eru einstaklingar með mikla reynslu af því að vinna með ungu fólki og af kennslu- og skólastarfi auk fjölbreytilegs bakgrunns og menntunar þar sem margir umsækjenda eru með masters- eða doktorsgráðu. Fjöldinn kom okkur svolítið á óvart og sýnir að margir geta hugsað sér að flytja til Flateyrar sem er auðvitað orðinn einn heitasti staður landsins.“

DEILA